Eðlileg fæðing eftir keisara

06.06.2006

Ég á nú von á 2. barni mínu en fyrsta barnið var tekið með keisara eftir að upp komst að barnið var með höfuðið í þverlegu. Við hverju má ég búast? Hvað eru miklar líkur á keisara í annað skiptið? Í hvaða vandamálum getur maður lent?

Kveðja, Guðrún.


Komdu sæl Guðrún og takk fyrir að leita á ljósmóður.is.

Ég vil benda þér á svar sem ég var að svara um keisarafæðingar, Keisari aftur?  Í þínu tilfelli ættu að vera góðar líkur á því að þú getir fætt eðlilega í þetta sinn, sérstaklega ef litla barnið þitt ákveður nú að tylla höfðinu ofan í grindina í þetta sinn og skorða sig undir lok meðgöngu eða í fæðingunni. Þá ættu þínar líkur á að fæða eðlilega í þetta sinn að vera svipaðar og hjá kona sem hefur sögu um keisarafæðingu vegna sitjandi stöðu barns, en líkur á eðlilegri fæðingu hjá þeim konum eru  taldar vera um 80-90%. Eins og ég sagði í fyrra svari er eftirlit í fæðingu talsvert meira hjá konu sem hefur keisarafæðingu að baki, en þá hefur maður fyrst og fremst í huga aukna áhættu á legrifu í fæðingunni sjálfri, sem þó er mjög sjaldgæf.

Kærar kveðjur og gangi þér vel,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. júní 2006.