Fæðing eftir keisara

14.09.2005
Sælar og takk fyrir góðan og fróðlegan vef.
Mig langar að spyrjast fyrir um hvort til séu til einhver viðmið um það hversu langur tími æskilegt er að líði frá keisaraskurði að næstu meðgöngu.  Og hversu miklar líkur eru á að kona sem er sett í keisara eftir 48 klst með hríðar vegna þess að útvíkkun gengur nánast ekkert þrátt fyrir dreypi, eigi barn seinna á eðlilegan máta.
 
.............................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Það er ekki til nein viðmið um það hvað þarf að líða langur tími frá keisaraskurði að næstu meðgöngu því sárið grær á nokkrum vikum og líkamlega ertu búin að ná þér eftir ca. þrjá mánuði.  Fæstar konur verða óléttar svo fljótt aftur. 
Það er eins og þú veist örugglega aldrei hægt að segja með neinni vissu hvernig næsta fæðing á eftir að ganga fyrir sig.  Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið fyrsta fæðingin þín sem endaði í keisara og hún er alltaf erfiðust.  Rannsóknir sýna að 50 - 80% kvenna geta fætt eðlilega um fæðingarveg eftir að hafa gegnist undir keisara þannig að þú átt góða möguleika seinna meir.
 
Bestu kveðjur
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
14.09.2005.