Fæðing eftir keisaraskurð

30.04.2004

Fæðing eftir fyrri keisara

Ég á eina dóttur sem að tekin var með keisara eftir 3 sólarhringa af því að reyna.  Það var hreyft við belgjum, labbað um gólf, grátið, örvænt, dripp og mænurótardeyfing.  Aldrei gekk blessað barnið niður og á endanum þegar ég var komin með 8 í útvíkkun var gefist upp.  Það kom svo í ljós að hún var með höfuðið skakkt í grindinni og gekk því aldrei niður almennilega (sannur þverhaus eins og mamma sín). [.............................]  Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að upplifa aftur.  Mig langar að vita hvaða stefna er á LSH í dag varðandi fæðingar eftir keisara.  Er það eitthvað sem að mælt er með að sé reynt, eða er frekar valið að gera keisara aftur.

Þetta er eitthvað sem að ég vil vita áður en að ég íhuga frekar að eignast börn.  Mikið vona ég að þið getið gefið mér einhver svör.  Helga

...................................................................................................................................

Sæl og blessuð Helga og takk fyrir fyrirspurnina.  Ég stytti aðeins söguna þína, vona að það sé í lagi.

Mér þykir leitt að heyra að fæðingin hafi gengið svona erfiðlega og mig grunar að þessir 3 sólarhringar hafi virst sem 3 ár.  Svona reynsla situr í konum og finnst þeim eðlilega ekki spennandi að ganga í gegnum slíkt aftur, því skil ég vel að þú viljir fá upplýsingar áður en þú leggur í að reyna aftur.

Algengast er að látið sé reyna á fæðingu eftir að kona hefur farið í keisara en hvert tilfelli er þó skoðað fyrir sig.  Yfirleitt er það þannig að eftir að kona er orðin barnshafandi og byrjuð í mæðravernd, fær hún viðtal við lækni og er þá farið yfir fyrri fæðingu.  Farið yfir hver ástæðan var fyrir keisaranum og hvort ástæða sé til að ætla að konan geti ekki fætt barn um leggöng.  Síðan er gerð áætlun fyrir meðgönguna og fæðingarmáta í samráði við konuna.  Eins og áður sagði er konan hvött til að láta reyna á fæðingu nema eitthvað bendi til að slíkt sé ekki mögulegt.  Þú gætir líka pantað tíma í "Ljáðu mér eyra" hjá göngudeild mæðraverndar á LSH. Þú gætir einnig pantað þér tíma hjá einhverjum af fæðingarlæknum LSH og beðið þau að fara yfir fæðinguna með þér.  Ágætt væri að panta tíma hjá þeim fæðingarlækni sem gerði keisarann á sínum tíma. 

Vona að þetta hjálpi eitthvað og endilega hafðu samband ef þú hefur fleiri spurningar.

                                                                             Kær kveðja

Yfirfarið 19.6. 2015