Spurt og svarað

06. júní 2004

Fæðing eða keisari?

Málið hjá mér er það að ég á tvö börn sem að ég fæddi. Þegar þau fæddust festust þau bæði á öxlunum. Eldra barnið mitt missti máttinn í hendinni í nokkrar vikur á eftir fæðingunni. Eftir fæðingu þeirra beggja var minnst á að ég yrði að fara í keisara næst. Svo núna er ég ófrísk aftur og þegar ég minntist á þetta og þá var sagt við mig að fæðingin hefði gengið bara ágætlega. En þegar ég hugsa um keisara verð ég voðalega smeyk og legg varla í að fara í hann. Hvað finnst ykkur að sé best í stöðunni.

Ein ófrísk.

........................................................................

Sæl vertu.

Því miður verð ég að segja þér strax að ég get ekki ráðlagt þér hvað gera skal í stöðunni, sú ákvörðun verður að koma frá þér sjálfri.  Mér sýnist á skrifum þínum að þú sért frekar hlynnt því að fæða en fara í keisaraskurð, af því álykta ég að upplifun þín af fæðingunum hafi alls ekki verið slæm. Axlarklemma (þegar barnið festist á öxlunum í fæðingunni) er hins vegar alvarlegt mál og því þarf að meta stöðuna vandlega og viðhafa sérstakar varúðarráðstafanir við fæðinguna, s.s. að hafa nægilegt starfsfólk til taks. 

Þú átt heimtingu á að fá góðar upplýsingar og útskýringar á þessum misvísandi skilaboðum sem þú hefur fengið varðandi fæðingu og keisaraskurð.  Best væri að fá fæðingalækni og ljósmóður til að skoða skýrslurnar um fyrri fæðingar og fara í gegnum þær með þér og skýrt út fyrir þér kosti og galla þess að reyna fæðingu eða fara í fyrirfram ákveðinn keisara.  Þá fyrst tel ég að þú getir tekið ákvörðun sem þú ert sátt við.  Ljósmóðirin þín í mæðravernd ætti að geta hjálpað þér að koma á slíkum fundi eða sagt þér hvernig þú berð þig að við það.  Ef ákvörðun þín verður sú að reyna fæðingu geturðu reynt að undirbúa þig svolítið, t.d. að kynna þér fæðingarstellingar sem opna mjaðmagrindina sem best, mikilvægi hreyfingar í fæðingu o.þ.h.

Með bestu kveðjum og gangi þér vel.                                           
Yfirfarið 19.6. 2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.