Fæðing í baði

10.08.2009

Hæ hæ.

Ég er komin 29 vikur og búin að vera með verki í lífbeininu síðustu vikur.  Ég stunda vatnsleikfimi fyrir ófrískar konur og líður mér aldrei jafn vel og í sundi, vatnið tekur verulega þungan af grindinni. Þar að auki hef ég alltaf fundið fyrir verulegri vellíðan og slökun í vatni.  Hvernig að aðstaðan á fæðingadeildinni í Rvk?  Hvað eru mörg baðkör? - Er það bara spurning um heppni hvort maður fái að komast ofan í bað?  Er hægt að óska eftir því að klára fæðinguna í baðinu? eða fer það bara eftir því hvort ljósmóðirin sé hrifin af vatnsfæðingum eða ekki?  Er hægt að óska eftir því við komu að fæða í vatni?

Kv. Ein sem slakar vel á í vatni :)


Komdu sæl.

Nýbúið er að taka fæðingardeildina á LSH í gegn og flestar fæðingarstofur komnar með stör og djúp baðkör.  Auk þess eru tvær fæðingastofur í Hreiðrinu, báðar með stórum og góðum baðkörum.  Nú nýlega var líka opnað fyrir að fæðing færi fram í baðkerinu.  Vissulega eru einhverjar ljósmæður sem ekki treysta sér til að taka á móti í baði þar sem vinnuaðstaða er kannski ekki upp á það besta og þvi er betra að nefna þetta við komuna á deildina þannig að hægt sé að útvega ykkur ljósmóður sem getur uppfyllt óskir ykkar eftir því sem hægt er.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10. ágúst 2009.