Spurt og svarað

25. apríl 2010

Fæðing um leggöng eftir 2 fyrri keisara

Mín fyrsta fæðing var bráðakeisari. Ég var með frekar slæma meðgöngueitrun og þegar ég var aðeins komin með 5 í útvíkkun hægðist of mikið á hjartslætti barnsins. Önnur fæðing var valkeisari þar sem ég var aftur komin með meðgöngueitrun (þó ekki líkt því eins slæma). Við getum sagt að læknirinn minn hafi verið keisaraglaður og ég hrædd eftir slæma reynslu. Núna er ég ófrísk í þriðja sinn og hafði sætt mig við að leggangnafæðing væri bara eitthvað sem ég fengi aldrei að upplifa því allstaðar var mér sagt að eftir tvo keisara væri of mikil hætta á legrofi til að taka þá áhættu að fæða eðlilega.Tek það fram að það eru sjö ár síðan ég fæddi. Núna þegar ég fór til læknis segir hann mér að rannsóknir sýni að það sé ekki meiri hætta að fara í leggangafæðinu eftir tvo keisara heldur en einn. Ég hef ekki fundið neitt þessu til staðfestingar og í raun fundið ósköp lítið um þetta mál. Hvað getið þið frætt mig um þetta því ég verð að fá umsögn frá fleiri aðilum áður en ég legg líf mitt og líf barnsins mín í hendur þessa ákveðna læknis.

Með fyrirfram þökk, ein mjög tvístígandi.

 


 

Sæl og blessuð!

Í þínu tilfelli hefur í raun ekki mikið reynt á það hvort fæðing um leggöng sé möguleg þar sem veikindi á báðum fyrri meðgöngunum og hjartsláttur barnsins í fyrri fæðingu komu í veg fyrir það. Í ljósi þess getur það verið freistandi að reyna þann möguleika ef þú hefur áhuga á því og heilsa þín leyfir.

Það er alveg rétt sem læknirinn þinn hefur sagt. Hættan á legrofi í fæðingu eftir 2 fyrri keisara er reyndar örlítið meiri en eftir 1 fyrri keisara en hún er samt sem áður lítil. Líkurnar á að fæðing um legggöng takist eru hins vegar miklar og lítið minni líkur en eftir 1 fyrri keisara.

Í fyrra birtist yfirlitsgrein í virtu læknatímariti þar sem gerð var samantekt á rannsóknum um útkomu fæðinga um legggöng eftir 1 fyrri keisara og 2 fyrri keisara sem og valkeisara eftir fyrri keisara. Eins og þú nefnir þá er smá áhætta á legrofi í fæðingu eftir fyrri keisara og hún eykst lítillega ef konan hefur farið tvisvar sinnum áður í keisara. Samt sem áður er áhættan lítil því samkvæmt þessari yfirlitsgrein er hættan á legrofi 0,72% eftir 1 fyrri keisara en 1,36% eftir 2 fyrri keisara. Það er ánægjulegt hve há tíðni fæðinga var um leggöng eftir 2 fyrri keisara en hún var 71,1% en 76,5% hjá þeim sem höfðu farið einu sinni í keisara. Þegar skoðuð var útkoma mæðra sem annars vegar var fóru í valkeisara eftir fyrri keisara og hins vegar þeirra sem reyndu leggangafæðingu eftir 2 fyrri keisara kom í ljós að fylgikvillar móður vegna fæðingar voru sambærilegir. Útkoma barnanna var einnig sambærilegt, hvort sem þau fæddust um leggöng eftir 1 fyrri keisara, 2 fyrri keisara eða með valkeisara eftir fyrri keisara.

Vona að þessar upplýsingar gagnist þér til að taka upplýsta ákvörðun um fæðingarmáta.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. apríl 2010.

Heimild
Tahseen,S, Griffiths, M (2009) Vaginal birth after two caesarean sections (VBAC-2)—asystematic review with meta-analysis of success rate and adverse outcomes of VBAC-2 versus VBAC-1 and repeat (third) caesarean sections. BJOG An International Journal of Obstetrics & Gynaecology, 117(1), 5-19.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.