Spurt og svarað

13. desember 2006

Fæðingarstellingar og grindarlos

Hæ, hæ!

Nú má ég búast við að fara eiga hvað úr hverju, en það er að koma smá kvíði í mig útaf grindargliðnuninni sem hefur verið að hrjá mig lengi vel. Hún er reyndar orðin svo slæm að ég á mjög erfitt með gang og svefn og hvers konar hvíldarstellingar eru óþægilegar. Ég get ekki legið á bakinu vegna þess hve legið er orðið stórt með þeim óþægindum sem fylgja. Hvaða fæðingarstellingum mælirðu með fyrir mig? Eins með mænurótardeyfinguna, ég fékk viðvörun að forðast taka hana þar sem þá fyndi ég ekkert fyrir grindinni á meðan og gæti átt í miklum erfiðleikum eftir á þar sem það hafi kannski verið lagt of mikið á hana með alls konar vöðli sem ég gæti annars ekki gert nema bara útaf deyfingunni. :(

Ég vona þú hafir einhver ráð handa mér og getir svarað mér fljótlega þar sem þetta fer að bresta á.

Takk fyrir frábæran vef :)

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Flestum konum hentar vel að vera uppréttar og á hreyfingu í fæðingunni, því það minnkar álagið á grindina og eykur hreyfanleika hennar.  Gott er að hanga á einhverju háu, eins og t.d. halda um hálsinn á manninum sínum og fá stuðning frá honum eða hanga fram á fæðingarúm sem er í hæstu stöðu.  Mælt er með að konur séu á fjórum fótum í fæðingunni því þessi stelling minnkar álag á bakið og þar af leiðandi minnkar hún verkinn sem leiðir aftur í bak. Einnig er mælt með að konur með grindarverki liggi á hlið í fæðingunni, þar sem þessi stelling eykur hreyfanleika grindarinnar og minnkar álag á hana.  Það er hins vegar mikilvægt að nota engar stellingar sem „glenna“ út grindina og auka þrýsting á hana, eins og að sitja á hækjum sér og liggja á bakinu og draga að sér fæturnar. 

Ég mæli með að  þú farir í bað á útvíkkunartímabilinu, þar sem konur eiga yfirleitt auðveldara með að hreyfa sig í vatninu og vatnið linar oft þá verki sem konur þjást af. Nudd, nálastungur og slökun eru einnig góðir kostir. TENS verkjameðferð er einnig talin mjög heppilegur kostur fyrir konur með grindarverki. Notað er sérstakt tæki sem gefur frá sér veikar rafbylgjur og trufla þannig sársaukaboð.  Blöðkum með rafskautum er komið fyrir á spjaldhrygg konunnar og hún stillir síðan styrk rafbylgjanna eftir þörfum.  Hægt er að fá lánað svona tæki á Grensásdeildinni án endurgjalds og einnig að fá kennslu í notkun þess. Þú gætir farið að nota þetta tæki strax og notað það síðan í fæðingunni. Þessi verkjameðferð hefur gagnast mörgum konum með grindargliðnun. Misjafnt er hvort mænurótardeyfing er talin heppileg fyrir konur með grindargliðnun. Hættan er sú að ef þú ert alveg dofin, finnir þú ekki fyrir grindinni og farir þá í stellingar sem setja of mikið álag á hana, án þess að þú finnir fyrir því. Þegar svo deyfingin fer úr eru verkirnir mun verri en áður og þú getur verið lengur að jafna þig.

Vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel!

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.