Fæðingastellingar

13.08.2006
Sælar!
Nú þjáist ég illa af æðahnútum frá börmum og niður á ökkla og er mjög slæm í stoðkerfinu, (vefjagigt og brjósklos) og á erfitt með að vera í sömu stellingu mjög lengi, get ekki staðið kyrr og á líka erfitt með að vera stöðugt á ferðinni án þess að setjast niður af  og til. Nú líður að fæðingu og ég sé ekki að ég haldi það út að vera í fæðingarrúminu á bakinu eins og síðast þó ég hafi verið aðeins upprétt. Það er svo mikill þrýstingur á bláæðarnar að ég þyldi það ekki. Hvaða stellingar eru bestar að vera í, bæði á útvíkkunartímabilinu og eins í fæðingunni sjálfri? Heitt bað finnst mér hryllilegt að fara í því hitinn víkkar enn meir æðarnar og finn því enn meiri þrýsting. Vantar svo innilega góð ráð núna því ég er að kafna úr fæðingarkvíða.
Kveðja H- Mamma verðandi á 35. viku megöngu. 
 


Komdu sæl
 
Nú er einmitt rétti tíminn fyrir þig að prufa hinar ýmsu stellingar og finna út hvernig þér finnst best að vera.  Það eru engar kröfur gerðar um að þú sért í fæðingarúminu (nema kannski á meðan saumaskapur stendur yfir ef eitthvað svoleiðis þarf).  Þú ættir endilega að vera dugleg í fæðingunni að breyta um stellingar þar sem það hentar vel útaf bakinu og vefjagigtinni og getur líka flýtt fæðingunni.  Í rauninni er enginn ein stelling öðrum betri en mörgum konum sem eru slæmar í baki finnst gott að rembast á fjórum fótum því það léttir aðeins á  þrýstingnum á bakið. 
Hugmyndir að stellingum í fæðingu eru endalausar en hér eru nokkar.  Þú getur gengið um, setið öfugt á stól og hallað þér fram á stólbakið, kropið og staðið upp á víxl (sumum finnst gott að krjúpa í hríð og standa upp á milli), setið í hægindastól með fæturna uppi, verið á fjórum fótum, staðið og haldið utan um makann og hangið á honum, setið í rúminu og hallað þér aftur að makanum, sturta getur reynst góð og þarf ekki að vera heit heldur bara eins og þér finnst þægilegt, staðið og "dansað" eða vaggað þér í mjöðmunum eða snúið þeim í hringi og svo framvegis.
Oftast eru æðahnútar ekki til vandræða í fæðingunni þar sem þrýstingurinn á grindarbotninn eyðir þeim oft tímabundið meðan á fæðingunni stendur´.  Þú ættir því að reyna að láta þá ekki valda þér kvíða fyrir fæðingunni.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
13.08.2006.