Farið legvatn?

24.08.2005
Ég var að pæla hvort maður myndi ekki fatta ef vatnið færi? Ég lá nefnilega uppí rúmi í gær og fann svo allt í einu eins og ég hefði bara pissað á mig, getur þetta hafa verið legvatn eða bara útferð.  Ég er komin tæpar 38 vikur og hef ekki verið með slæma fyrirvaraverki. Ég hef alltaf heyrt að maður fatti alveg þegar vatnið fer.
Vona að þið getið aðstoðað mig!
 
.....................................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Venjulega þegar vatnið fer fer það ekkert á milli mála, það kemur mikil gusa og svo heldur áfram að renna og maður ræður ekki neitt við neitt.  Stundum gerist þetta þó ekki svona heldur er eins og það komi lítið gat á belgina sem legvatn rennur út um og þá kemur lítið í einu, en venjulega heldur áfram að renna.  Það er líka svolítið sérstök lykt af legvatni þannig að með því að þefa af því sem rennur getur maður frekar áttað sig á því hvað er að gerast og hvort sé til dæmis um þvag að ræða .  Slímtappinn getur verið mjög þunnfljótandi þegar hann fer, svipað legvatni nema lyktarlaus og það rennur ekki áfram.  Það er ekki hægt að segja til um það í gegnum tölvupóst hvað þetta hefur verið sem hefur komið hjá þér en ef eitthvað rennur áfram myndi ég ráðleggja þér að fara í skoðun og fá úr því skorið hvort um legvatn er að ræða.
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
24.08.2005.