Spurt og svarað

10. júlí 2006

Fjölskyldusaga um erfiðar fæðingar

Ég er fædd 1982 og í samráði við unnusta minn erum við farin að hugsa um barneignir á næstu árum. Ég á 2 eldri systkini og gekk mömmu minni alla tíð mjög erfiðlega að koma börnunum sínum í heiminn. Elsta systkini mitt hlaut töluverðan súrefnisskaða í fæðingu, sem hefur svo háð því alla ævi. Með næst elsta systkini komst barnið í heiminn eftir langa og erfiða fæðingu. Þegar ég svo fæddist var ákveðið að ég yrði tekin með keisara. Eftir allar þessar fæðingar var mömmu minni sagt að hún væri með svo þrönga grind að hún hefði alltaf átt að fara í keisara. Nú er ég svolítið hrædd þegar ég hugsa um fæðingar á mínum börnum í framtíðinni. Við mamma erum mjög líkar í vaxtarlagi og því hef ég spurt sjálfa mig að því hvort mér muni ganga jafn illa að koma mínum börnum í heiminn líkt og mömmu. Mig langar ekki til að eignast barn sem er jafn fatlað og mitt elsta systkini og ég vill ekki lenda í bráðakeisara á síðustu stundu. Er hægt að fara í einhverskonar mælingu eða eitthvað ámóta áður en ég verð ólétt eða áður en ég fæði barn til að skera úr um hvort ég er hæf líkamlega séð til að fæða barn?


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Áður fyrr voru teknar röntgenmyndir af mjaðmagrind til að mæla stærðina. Nú hefur hins verið sýnt fram á að þessi mæling getur ekki gefið áreiðanlega vísbendingu um það hvort kona geti fætt eðlilega eða ekki. Í dag er talið best að láta reyna á fæðingu því það er besti mælikvarðinn á það hvort kona geti fætt eðlilega. Á meðgöngunni framleiðir líkaminn hormónið relaxín sem hefur m.a. þau áhrif að liðbönd í mjaðmagrindinni mýkjast upp og gera hana eftirgefanlegri. Höfuðbein barnsins eru ekki gróin saman þannig að kollurinn hefur þann eiginlega að geta mótast á leið sinni í gegn um mjaðmagrindina. Auðvitað hefur stærð barnsins eitthvað að segja í þessu sambandi en þættir s.s. kraftur hríðanna, staða höfuðsins í grindinni og hreyfanleiki konunnar í fæðingu geta einnig haft mikið um það að segja hvort kona geti fætt eðlilega.

Þegar að því kemur að þú verður ófrísk skaltu segja ljósmóður og lækni í meðgönguverndinni sögu þína og þá verður væntanlega tekið tillit til þess, t.d. með því að hafa lægri þröskuld fyrir keisarafæðingu ef fæðingin dregst á langinn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.