Spurt og svarað

01. desember 2004

Fljót að fæða og bý langt frá sjúkrahúsi

Sælar ljósmæður.

Ég er með fyrirspurn til ykkar.  Þannig er að ég er ófrísk að mínu þriðja barni og er gengin35-36 vikur og barnið er ennþá sitjandi.  Ljósmóðirin mín segir að ef einhver geti fætt sitjandi barn þá gæti ég það.  Ég er mjög fljót að fæða og einhverra hluta vegna þá er ég ekki betur gefin en svo að ég finn ekki fyrir útvíkkunartímabilinu fram að svona 8-9 í útvíkkun en þá er ?kveikt? á sársaukanum sem er mjög mikill og ég fæði börnin svo í einum rembing.  Fyrir mér er þetta ástand sem ég hef akkúrat enga stjórnun á líkami minn tekur af mér völdin og allt gerist með svo miklum látum að allir fara í ?panic?.

Það eru allir að tala um hversu heppin ég sé að finna ekki til í útvíkkuninni og það má vel vera.  Ég er hins vegar ekki sammála því og hef af þessu áhyggjur. Í fyrsta lagi þá bý ég úti á landi það eru yfir 100 km á næsta sjúkrahús.  Í síðustu fæðingu rétt náði ég að komast upp á spítala og setja mig í fæðingarstellingar við erum að tala um u.þ.b. 20 mín frá því við lögðum bílnum fyrir framan spítalann og að barnið fæddist. Núna hef ég áhyggjur af því að barnið er sitjandi og ef ég verð svona fljót aftur eða ennþá fljótari þá nái ég engan veginn á sjúkrahús á réttum tíma.

Er eitthvað gert fyrir svona konur eins og mig.  Maðurinn minn vill að ég leggist inn á spítala eitthvað fyrir áætlaðan fæðingardag hann er kvíðinn líka, eðlilega, enda ekki spennandi tilhugsun að þurfa að keyra með látum í allavega veðri kannski með konu sem gæti fætt með hraði.

Ég hef rætt þetta við ljósmóðurina mína en það brosa bara allir og tala um hversu heppin ég sé og að það þurfi nú ekki að hafa áhyggjur af þessu.  Ég geri mér líka grein fyrir því að þessi fæðing gæti orðið allt öðruvísi og lengri en hinar en samt eru meiri líkur á að hún gangi hratt eins og hinar.

Með kveðju,
35 vikur + dagar.

.....................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Já - það myndu margar konur öfunda þig af þessu en það er líka vel hægt að skilja að þetta valdi þér kvíða.

Varðandi það að barnið er ennþá sitjandi þá er ennþá von til að það snúi sér og ef það gerir það ekki þá er mögulega hægt að reyna að venda því í höfuðstöðu en það er venjulega gert í kringum 37. viku. 

Það er nú óþarfi að leggjast inn á spítala nema einhver læknisfræðileg rök liggi þar að baki en það væri kannski ráð að þú myndir fá samastað nær sjúkrahúsi þegar líða fer að fæðingunni og það eru dæmi um það að konur búi nálægt sjúkrahúsi þegar líða fer að fæðingu.

Ég mæli með að þú ræðir betur við ljósmóðurina þín um þessi mál og vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Yfirfarið, 28.10. 2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.