Framhöfuðstaða

20.04.2006

Hæ,
mig langar að spyrja ykkur hvað sú tegund fæðingar kallast fæðing eins og þegar ég
átti dóttir mína. Hún snéri ekki andlitinu að hryggnum á mér eins og börnin eigi að gera heldur sneri hún hnakkanum að hryggnum á mér.

Í upphafi fæðingar var hún með höfuðið þvert og sneri höfðinu svo í þessa átt. Einhvern veginn hélt ég að mér hefði verið sagt að þetta héti andlitsfæðing samt kom ekki andlitið fyrst út heldur kollurinn ( þ.e. efsti hlutinn á höfðinu. Það var reynt að nota sogklukku sem virkaði ekki, hrökk alltaf af. Hún var að síðustu tekin með töng. Sogklukkan lenti ekki á hnakkanum eins og þegar þau snúa rétt. Heldur fyrir ofan höfuðmótin (eða hvað það nú heitir) þar sem gatið er á kollinum á þeim. Mér skildist að af því hún hefði snúið svona þá hefði verið meira ummál sem kæmi út.
Hún var líka stór fædd eða 20 merkur.
Með kveðja ein ólétt aftur.


Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Mér heyrist á lýsingunni að þetta hafi verið framhöfuðstaða hjá barninu.  Þá snýr andlitið upp en ekki niður eins og það gerir oftast.  Það er rétt sem þú segir að þá er ummálið kollsins sem fer í gegnum grindina mun meira heldur en ef hnakkinn kemur á undan.  Nú veit ég ekki hvort hún endaði þannig eða hvort það tókst að snúa henni með töngunum.  Ef hún (þú) hefur klárað fæðinguna þannig er yfirleitt bara talað um að barnið hafi fæðst í framhöfuðstöðu.
Það er þó alls ekki þar með sagt að þetta verði eins í næstu fæðingu.
Vonandi gengur þetta allt vel og þetta barn ekki eins “forvitið” og það fyrra og horfir bara niður og bíður rólegt eftir að fá að renna sér í gegnum fæðingarveginn!
Gangi þér vel

Bestu kveðjur
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
20. apríl 2006

Yfirfarið, 27. janúar 2016