Full meðganga - gangsetning

11.12.2008

Hæ, hæ!

Ég var bara að velta fyrir mér af hverju konur eru látnar ganga 42 vikur. Ég á eitt barn og var látin ganga 42 vikur og 3 daga og ég verð bara að segja að ég var orðin alveg útkeyrð og í kjölfar fæðingar kom fæðingarþunglyndi. Held ég að það hafi komið líka vegna þess hve útkeyrð ég var:(

En í dag er barn númer 2 á leiðinni og langar mig ekki að fara svona fram yfir aftur þá spyr ég hef ég ekkert um það að segja? Eða verð ég bara að bíða og sjá?

Takk takk:)


Sæl og blessuð!

Hér á landi eru konur venjulega gangsettar þegar meðgöngulengd er 41-42 vikur. Yfirleitt er reynt að hafa það þannig að meðgangan verði ekki lengri en 42 vikur, þannig að það er frekar óvenjulegt að konur gangi með í 42 vikur og 3 daga eins og þú hefur gert.  Það er best fyrir móður og barn ef fæðingin fer sjálfkrafa af stað en ef fæðing er ekki farin af stað við 41 viku er rétt að huga að gangsetningu. Ég hvet þig til að ræða málin við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. desember 2008.