Fylgjan klofin og með ?infarct?

08.03.2006

Góðan dag!

Ég eignaðist mitt fjórða barn nýlega. Ég er 38 ára, meðgangan og fæðingin gekk vel. Ég hef alltaf haft áhuga á að vita hvernig fylgjan er eftir fæðinguna. Þær hafa alltaf verið stórar og fínar en þessi fylgja var með stóran ?infarct? og klofin að sögn ljósmóðurinnar og það blæddi töluvert mikið í fæðingunni. Samt ekki það mikið að það hefði einhver áhrif á mig. Barnið fæddist heilbrigt og var um 16 merkur. Mig langar til að vita hvers vegna fylgjan er klofin og hvort ?infarctinn? sé vegna einhvers sem gerðist á meðgöngunni. Öll mín börn hafa fæðst eftir 40 vikna meðgöngu upp á dag, er það ekki svolítið sérstakt.

Kveðja.

...............................................................................................

Sæl og til hamingju með barnið!

Það að fylgjan sé klofin hefur kannski ekki neina sérstaka þýðingu, svo ég viti. Ef fylgjan hefur verið klofin hefur ljósmóðirin líklega verið að velta fyrir sér hvort nokkuð vantaði á fylgjuna en við ljósmæður tölum stundum um að fylgjan sé klofin en falli vel ef hún er klofin en virðist vera heil, þ.e. ekki grunur um að það vanti í hana.  

?Infarct? þýðir á íslensku drep vegna stíflu og skýrir sig kannski sjálft, þ.e. staðbundin blóðþurrð hefur orðið í fylgjunni og afleiðingin af því er að sá hluti fylgjunnar verður óstarfhæfur eftir það.  Svona stífludrep sjáum við í einni og einni fylgju og það þarf ekki að hafa neina þýðingu fyrir barnið því þetta hefur líklega verið mjög lítill hluti af fylgjunni.

Jú, það er svolítið sérstakt að þú hafir fætt öll börnin þín eftir nákvæmlega 40. vikna meðgöngu.

Vona að þetta svari spurningunum þínum.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. mars 2006.

Yfirfarið, 27. janúar 2016