Spurt og svarað

14. júní 2005

Fyrirburapælingar

Sælar:)

Ég var að spá! Ég er komin rúmar 33 vikur, fór í skoðun út af einhverjum samdráttum og veseni og leghálsinn er aðeins farinn að opna sig og orðinn mjúkur. Núna hafa samt ekkert verið neitt óeðlilega miklir samdrættir í svona viku. Eru eitthvað meiri líkur en ella að krílið komi eitthvað fyrir tímann?

Takk fyrir góð svör og skemmtilegan vef!

...........................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Þegar talað er um fyrirburafæðingu er átt við fæðingu barns fyrir 37 vikna meðgöngu. Vangaveltur þínar eru eðlilegar þar sem þú ert rúmlega 33 vikur gengin og hefur haft einhverja samdrætti. Mér skilst, að þú hafir farið í aukaskoðun þess vegna og leghálsinn verið skoðaður, sem leiddi í ljós mýkingu á honum og byrjandi opnun. Hafi fagfólkinu, sem sinnti þér, fundist þú vera í  hættu á yfirvofandi fyrirburafæðingu hefðirðu líklega verið lögð inn á meðgöngudeildina. En þar sem það var ekki gert og að dregið hefur úr samdráttunum er það jákvætt fyrir þig. Þér hefur líklega verið sagt að drekka vel því ónóg vökvainntekt getur valdið of tíðum samdráttum á meðgöngu.

Það er mjög erfitt að spá fyrir um, á þessum tímapunkti, hvort þú megir eiga von á því að barnið fæðist eitthvað fyrir tímann. Oftast eru orsakir fyrirburafæðingar ekki þekktar en það eru margir áhættuþættir, sem tengjast fyrirburafæðingu t.d. ýmsir sjúkdómar, sýkingar, blæðingar á meðgöngu, fjölburar, fyrri fyrirburafæðingar, reykingar og andlegt álag svo eitthvað sé nefnt.

Það er eðlilegt að hafa samdrætti á þessum tíma en ekki, að þeim fylgi verkir eða túrverkir, sem leiða aftur í bakið eða þrýstingur niður í grind og á legháls. Ef blóðug og slímug útferð kemur frá leggöngum ásamt samdráttum myndir þú hafa samband við mæðraverndina þína eða lækna eða ljósmæður Kvennadeildar Landspítala.

Vona, að þú náir að njóta þess sem eftir er meðgöngunnar og gangi þér vel!

Yfirfarið 28.okt.2015.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.