Spurt og svarað

03. apríl 2008

Fyrri keisaraskurður - hvað má í næstu fæðingu?

Sælar!

Mig langar að vita hvernig ferlið er fyrir konur sem hafa fætt með keisaraskurði en ætla að reyna eðlilega fæðingu næst. Þarf að vera með sírita allan tímann? Má vera í baðinu sem verkjastillandi? Má borða og drekka allan tímann? Hvað má sóttin vera löng án þess að gripið sé inn í og gerður keisaraskurður? Sem sagt er eitthvað sem er bannað eða ekki hægt eftir fyrri keisaraskurð?

Með góðri kveðju, Erla.


Sæl Erla og takk fyrir að leita til okkar!

Þar sem fæðing eftir fyrri keisara telst vera áhættufæðing þá er fylgst sérlega vel með móður og barni í fæðingunni. Fæðingar eftir fyrri keisara ganga mjög oft vel en áhættan felst aðallega í aukinni hættu á legbresti og aukinni hættu á að aftur þurfi að gera keisara. Tíðni legbrests hjá konum í fæðingu eftir fyrri keisara er innan við 1% svo það er langt frá því að vera algengt. Til að geta fylgst vel með móður og barni er nauðsynlegt að vera í sírita nær allan tímann en að sjálfsögðu eru gerð hlé á síritun meðan konan fer t.d. á salerni. Konur eru einnig fastandi ef gera þarf keisaraskurð í skyndi. Þá er sett upp nál í æð og gefinn vökvi þar sem konur eru fastandi. Á fæðingardeild LSH er nýlega búið að taka í notkun þráðlausan sírita sem konur geta verið með ofan í vatni og því er ekkert því til fyrirstöðu að nota baðið sem verkjastillingu þó að konur þurfi að vera í sírita. Þetta er mikil framför og hefur nú þegar nýst mörgum konum.

Það er ekki hægt að segja til um hvenær gripið er í fæðingu því það fer allt eftir aðstæðum hverju sinni og margt sem þarf að meta og taka tillit til.

Þannig að í stuttu máli þá er munurinn sá að konur sem fæða eftir fyrri keisara eru fastandi, með vökva í æð og tengdar við sírita.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. apríl 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.