Gangsetning eftir fyrri keisara.

24.01.2005
Mér liggja á hjarta nokkrar spurningar varðandi gagnsetningu. Ég fór í fyrirfram ákveðinn keisara  síðast vegna sitjanda og hef núna verulegar áhyggur af því að lenda aftur í keisara.

Þar sem ég er með meðgöngusykursýki (var það líka síðast) þá hef ég heyrt að yfirleitt eða alltaf séu konur með meðgöngusykursýki settar af stað fyrir eða í kringum áætlaðan fæðingardag. En ég hef líka heyrt af konum sem voru ekki settar af stað.

Ég er orðin voða ringluð á öllum "sögunum" í kringum mig varðandi það hvort kona megi fara í gangsetningu ef hún á keisara að baki, sumir segjast hafa verið gangsettir eftir keisara aðrir segja að það megi alls ekki. Hvert er hið sanna?

Einnig hef ég verið að lesa mér til um gangsetningar og allstaðar kemur fram að það sé miklu meiri líkur á að fæðing endi með inngripum og jafnvel keisara sé fæðing gagnsett. Ekki beint uppörvandi að lesa það. Einnig kom fram á doktor.is að bæði drippið og stílar væru ekki æskilegt fyrir konu sem er með astma? Ég var með slæman astma sem krakki og hef fengið köst stöku sinnum á fullorðinsárum? Má ég þá ekki fá dripp og stíla?

Ég á nú sennilega eftir að ræða þetta betur við ljósmóðurina mína en langaði að ath hvort ég fengi góð svör hér, hef skrifað hingað áður og fékk mjög góð svör frá ykkur.

Með þökk fyrir skemmtilegan og fræðandi vef

Ein ringluð
                                            
                             ..................................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Þar sem þú hefur farið í keisaraskurð áður er legið þitt viðkvæmara en annars.  Þar af leiðandi eru seinni fæðingar flokkaðar sem áhættufæðingar, þú verður undir nánara eftirliti og fyrr verður gripið inní vegna þessarar ástæðu.  Þetta á við hvort sem þú verður gangsett eða ekki. 
 
Oft eru konur með sykursýki gangsettar á 39.-41. viku meðgöngunnar.  Þetta er þó alltaf metið útfrá hverri konu og hversu slæm sykursýkin er.  Það er einnig matsatriði fæðingalæknis hvort þú verður gangsett eftir fyrri keisara eða ekki.  Þegar konur eru gangsettar eftir fyrri keisara er þó alltaf haft í huga að fara mjög varlega og reyna ekki meira á legið en það þolir.  Reynt er að byrja á að sprengja belgina og svo er byrjað á að gefa helmingi minni skammt af dreypinu en konu er gefið sem ekki hefur ör á leginu. Ekki eru konum gefið lyf upp við legháls eftir fyrri keisara heldur er notaður leggur með blöðru á endanum sem víkkar út leghálsinn smátt og smátt.
 
Það er rétt að það eru meiri líkur á inngripum þegar þarf að gangsetja konur.  Hugsunin með því að gangsetja sykursjúkar mæður er líka að komast hjá vandamálum sem geta komið þegar konan fera að ganga framyfir eins og stærra barni, erfiðari fæðingu og fylgjuþurrð þar sem fylgjan gegnir hugsanlega ekki lengur sínu hlutverki.
 
Astmi og gangsetning er líka eitthvað sem ljósmóðirin þín og læknirinn þurfa að vita af en þar sem hann er ekki verri en þetta finnst mér ólíklegt að hann stoppi gangsetningu en það þarf kannski að hafa tilheyrandi lyf nærri ef þú skildir fá astmakast.
 
Ég hvet þig eindregið til að tala um þetta við ljósmóðurina þína og fá að tala við fæðingalækni ef það er hægt, það getur minnkað kvíða og gefið þér öryggi.
 
Með bestu kveðju og gangi þér vel.    Yfirfarið 28.okt.2015