Gangsetning/framhöfuðstaða

22.01.2015

Góðan dag ég er ólétt að mínu þriðja barni og er að velta fyrir mér hvort það sé eitthvað hægt að undirbúa sig fyrir væntanlega fæðingu en ég er komin 28 vikur núna. Fyrsta fæðingin gekk frekar vel, strákurinn kom sjálfur á settum degi, framhöfuðstaða en lítill og nettur og þá gat ég fætt eðlilega. Þegar ég var ólétt að seinna barninu þá sagði ljósan mér alltaf að það barn yrði kannski "aðeins" stærra, ég mætti búast við því fyrir tímann og allt myndi að öllum líkindum ganga mun hraðar heldur en í fyrstu fæðingu. Það endaði með 42 vikna meðgöngu, gangsetningu, bráðakeisara og rúmlega 16 marka barni sem líka var í framhöfuðstöðu. Er líklegt að þriðja barnið komi líka í framhöfuðstöðu? Ég hitti fæðingarlækni sem sagði mér að ég yrði ekki gangsett í kringum settan dag heldur yrði keisari skoðaður ef ég næði 42 vikum, nú spyr ég líka hvort það væri ekki eðlilegra að gangsetja mig uppá að barnið stækki ekki of mikið? kv. Þriðja barn

 

Heil og sæl, það er ekki til neitt einfalt svar við þessu. Þegar kemur að því hvernig fæðing gengur er það ekki endilega stærð barnsins ein sem skiptir máli, líka spilar inní hvernig barnið snýr (eða kemur niður) og hvernig hríðarnar eru. Þú hefur lent í því að vera með barn í framhöfuðstöðu sem gerir fæðingu alltaf frekar erfiðari. Varðandi gangsetningu þá er  heldur líklegra að þurfa einhver inngrip í fæðinguna heldur en þegar þú ferð sjálf af stað. Það er ómögulegt að segja fyrir um hvað lengi þú munt ganga með eða hvort þetta barn verður einnig í framhöfuðstöðu. Framhöfuðstaða núna er þó eitthvað sem ég mundi hafa í huga þegar kemur að fæðingunni. Segðu ljósmóðurinni frá því að þannig hafi það verið áður. Það getur hjálpað að vera á hreyfingu í fæðingunni og að gera ekki gat á belg nema að mjög vel íhuguðu máli. Það hefur reyndar dregið mikið úr því að það sé gert en samt er allt í lagi að nefna það. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
22. jan. 2105