Spurt og svarað

20. september 2006

Get ég beðið um keisara næst

Takk fyrir frábæran vef. Hann er búinn að nýtast mér rosa vel á
meðgöngunni og við að prófa mig áfram í brjóstagjöfinni.

Ég á eina 5 vikna og gekk illa að koma henni í heiminn. Var sett af stað eftir að hafa gengið með 2 vikur fram yfir og fór aldrei meira en í 8 í útvíkkun, fékk mikinn hita af verkjalyfjunum og var því sett í keisara að lokum. Reynsla mín af fæðingunni var ekki góð á neinn hátt fyrr en ég fékk gullmolann minn í fangið. Hríðarnar voru svo harðar, ég kastaði mikið upp og þetta gekk allt svo hægt að ég er hreint út sagt skíthrædd við að eignast annað barn. Mig langar til að vita hvort ég geti beðið um skipulagðan keisara með næsta barn, eftir að hafa farið einu sinni í keisara.


Komdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is.
 
Mér finnst leitt að heyra að upplifun þín af síðustu fæðingu hafi verið erfið. Margt hefur þar greinilega spilað inní, og þá fyrst að nefna að um gangsetningu með fyrsta barn hafi verið að ræða. Því miður er það svo (eða kannski sem betur fer!) að þrátt fyrir að ýmsar vísindaframfarir hafi átt sér stað í fæðingarfræðinni, er það nú einu sinni svo að náttúran hefur enn yfirburði og því alltaf meiri áhætta á því að fæðing sem byrjar í gangsetningu endi með keisarafæðingu. Það þarf hins vegar alls ekki að þýða að næsta fæðing muni líkjast þeirri fyrri. Í þínu tilfelli gæti það a.m.k. hljómað þannig við fyrstu sýn að þú hafir alla burði til að fæða eðlilega í næsta sinn, sérstaklega ef þú ferð sjálf af stað. Ég held hins vegar að kannski sé allt of snemmt fyrir þig að fara að hugsa um næstu fæðingu, til þess gefst vonandi nægur tími. Nú skaltu reyna að njóta móðurhlutverksins með litlu stúlkunni þinni.

Landspítalinn býður hins vegar upp á þjónustu sem heitir „Ljáðu mér eyra”, þar sem ljósmóðir og fæðingarlæknir fara með konu og hennar maka í gegnum erfiða fæðingarupplifun. Hægt er að fá upplýsingar um þessa þjónustu á heimasíðu Kvennasviðs LSH og hægt að panta tíma alla virka daga frá kl. 08:00-16:00 í síma 543 3265, 543 3266. Ég myndi eindregið ráðleggja þér að panta tíma hjá þeim þar sem hægt er að fara í gegnum fyrri reynslu á þinum/ykkar forsendum þegar þú treystir þér til, þú þarft alls ekki að vera barnshafandi aftur áður en þú byrjar að vinna úr þessari fyrri reynslu. Ákvörðun um fæðingarmáta eftir fyrri keisarafæðingu mun hins vegar í framtíðinni fara fram í samráði við þinn fæðingarlækni og ljósmóðir, þar sem að sjálfsögðu þú hefur mikið um það að segja hvaða ákvörðun verður tekin. Ég held hins vegar að mikilvægt sé fyrir þig að vinna úr þessari erfiðu reynslu þinni nú,  áður en næsta fæðing er undirbúin. Gangi þér vel.

Með kærri kveðju,

Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.