Getur fæðing gengið eðlilega þrátt fyrir slæma grindargliðnun?

19.01.2005

Sælar.

Ég er komin rúmar 30 vikur á leið með mitt annað barn og komin með alveg svakalega mikla grindargliðnun. Ég er byrjuð í sjúkraþjálfun og er frá og með áramótum að minnka við mig vinnuna. Ég er alveg svakalega slæm og sum kvöld hreinlega græt ég úr sársauka.

Mín spurning er hvort að maður geti ekki alveg átt eðlilega þó að grindargliðnunin sé svona mikil.

Kveðja.

..............................................................

Sæl og blessuð og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Mér þykir leitt að heyra hversu slæm þú ert af grindargliðnun.  Það er gott að þú ert komin í sjúkraþjálfun og þar með farin að fá hjálp og vonandi einhver góð ráð um hvernig þú getir minnkað verkinn. Það er líka gott að þú sért að minnka vinnuna því það er mikilvægt að þú ofgerir þér ekki og fáir næga líkamlega hvíld þegar svona er ástatt. Nú veit ég ekki hversu mikið þú vinnur en þarftu nokkuð að minnka vinnuna enn meira?  Hvíldin er oft besta meðalið við grindargliðnun, ekki ofgera þér líkamlega.

Varðandi fæðinguna þá átt þú alveg að geta fætt á eðlilegan hátt þrátt fyrir þetta.
Það sem er mikilvægt fyrir þig í fæðingunni er að finna góða stellingu að vera í, þú þarft þegar þar að kemur að prófa ýmsar stellingar og finna út hvað hentar þér best.
Bað gæti verið gott fyrir þig í fæðingunni, ef þú átt gott bað heima þá skaltu endilega fara í það þegar hríðarnar eru farnar að vera sárar. Þyngdarleysið í vatninu og hitinn frá því geta gert kraftaverk í verkjastillingu og ég tala nú ekki um þegar um grindargliðnun er að ræða.
Nú veit ég ekki hvar þú ætlar að fæða en á mörgum fæðingastofnunum er baðkar, á fæðingagangi LSH er eitt baðkar. Ef þú ætlar að fæða þar þá væri sniðugt fyrir þig að þegar þú hringir og tilkynnir komu þína að spyrja hvort baðið sé laust og hvort sé hægt að taka það frá fyrir þig.

Nálastungur geta líka reynst vel við grindargliðnunarverkjum bæði á meðgöngu og í fæðingu. Þú getur einnig skoðað fleiri ráð hér á síðunni okkar í pistli sem heitir Verkir í mjóbaki og mjaðmagrind á meðgöngu.

Eitt af hlutverkum ljósmóðurinnar sem sinnir þér í fæðingunni er að hjálpa þér að takast á við verkina, því er mikilvægt að þú segir henni um leið og þú kemur til hennar, að þetta hafi verið að há þér á meðgöngunni. Þá getur hún betur hjálpað þér að finna þær leiðir sem henta þér best til að takast á við fæðinguna.

Með óskum um batnandi líðan.

Yfirfarið 28.október 2015