Blæðingar á meðgöngu

07.01.2008

Sæl, og takk fyrir góðan vef!
Ég er komin 6 vikur. Fyrir viku byrjaði brún útferð, ekkert ferskt blóð, ekki mikið en þó stöðugt og þarf ég að vera með bindi. Útferðin er frekar þurr og eins og mjúkir trefjaþræðir í henni. Ég fékk upplýsingar hjá ljósmóður að hreiðurblæðing stæði yfir í ca. 2-3 daga. Þegar ég var búin að vera með þessar blæðingar í viku fór ég í skoðun hjá mínum kvensjúkdómalækni, allt var eðlilegt hjá fóstrinu sem var sprelllifandi og engin merki um blæðingar í legi, eða hótandi fósturlát.
Nú blæðir enn jafnmikið og stöðugt, þær hafa hvorki aukist né minnkað og áferðin er sú sama. Verkir eru engir, aðeins eðlilegur vægur seiðingur undir lífbeini.
Hvað í ósköpunum getur þetta verið? Hvað get ég búist við að þetta vari lengi?  Engin sem ég tala við hefur heyrt um að hreiðurblæðingar geti varað svona lengi.
Með fyrirfram þökk,
Birna


Komdu sæl Birna

 

Það er ekki gott að segja hvað þetta getur verið.  Sennilegast er þó að þetta sé hreinsun á gömlu blóði sem hefur verið í leghálsinum eða að það vætli eitthvað frá honum og komi brúnt niður.  Brúnt blóð bendir til gamallar blæðingar sem einhverra hluta vegna hreinsast svona hægt og stendur því yfir í langan tíma.  Það er engin leið fyrir mig að segja þér hversu lengi þetta stendur þú verður bara að bíða þolinmóð og halda áfram að fylgjast með blæðingunni, vonandi stoppar hún samt fljótlega.  Góðu fréttirnar eru þær að það er allt í lagi með fóstrið og ef þú ert með eða færð einhver óléttueinkenni eins og ógleði, breytingar á brjóstum eða þreytu, veistu að meðgangan er á góðum vegi þó það blæði enn. 

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. janúar 2008