Spurt og svarað

24. febrúar 2007

Getur þetta verið Herpes?

Halló!

Ég er hérna með spurningu sem ég þarf bráðnauðsynlega að fá svar við. Ég er ólétt og komin 18 vikur á leið. Fyrir einu og hálfu ári fékk kærastinn minn einhverskonar bólu á typpið sem lak úr og varð svo að sári og hvarf. Hann fór til læknis og læknirinn tók sýni úr þessu og ekkert fannst, sagði þetta vera ekkert. Ég hef aftur á móti ekki fengið neitt! Segjum sem svo að þetta sé Herpes og/eða einkennalaus kynfæraáblástur/Herpes, þ.e.a.s. ef ég er með Herpes en engin einkenni! Er það ekki hættulegt! Get ég smitað tilvonandi barn mitt! Ég man ekki eftir að hafa fengið einkenni eða neitt.

Takk fyrir góðan og gagnlegan vef.

Kveðja, Guðrún.Komdu sæl Guðrún og takk fyrir að leita til okkar,

Ég held að þú getir alveg verið róleg með það að litlar líkur eru á því að kærastinn þinn hafi verið með herpes ef ekkert hefur ræktast frá því sýni sem læknirinn tók (þótt aldrei sé hægt að vera 100% öruggur). Yfirleitt er það þannig að fólk fær einkenni við fyrstu herpes sýkingu sem leggst á kynfærin, þótt það sé heldur ekki algilt. Þannig er ólíklegt að þú sért með dulda herpes sýkingu og því held ég að þú getir alveg verið róleg. Varðandi herpes sýkingu á meðgöngu er mesta smithætta frá móður til barns ef kona fær frumsýkingu á meðgöngu og þá sérstaklega á fyrsta hluta meðgöngu. Ef hins vegar um endurtekna sýkingu er að ræða er ólíklegt að smit eigi sér stað á meðgöngu. Í báðum tilvikum, bæði með frumsýkingu og endurtekna sýkingu, eru sérstakar ráðstafanir  gerðar ef útbrot eru til staðar þegar fæðing hefst og þá er stundum ráðlögð keisarafæðing til að fyrirbyggja smit, en vinnureglur eru þó misjafnar eftir löndum. Það er þó alltaf talið að frumsýking sé líklegri til að smita en endurtekin sýking. 

Ef þú leitar á síðunni undir „herpes” getur þú fræðst betur um þetta. Ég hef hins vegar sterka tilfinningu fyrir því að þú getir algjörlega sofið rólega yfir þessu og að þetta séu óþarfa áhyggjur.

Njóttu nú meðgöngunnar og gangi þér vel.

Kærar kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. febrúar 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.