Spurt og svarað

03. september 2009

Góð ráð frá ?Hypno-mömmunni?

Sælar!

Ég las fyrirspurn frá konu varðandi öndunaræfingar og stellingar og mig langaði að mæla með nokkrum atriðum við hana. Þegar ég var að undirbúa mig undir fæðingu dóttur minnar keyptum við maðurinn minn okkur heimanámskeið í hypnobirthing frá www.hypnobabies.com og reyndist það okkur mjög vel. Þar lærðum við góðar öndunaræfingar og slökunartækni og nokkrar líkamlegar æfingar til að undirbúa fæðinguna. Þá fengum við einnig blað yfir stellingar sem mælt var með að nota og leiðbeiningar fyrir „kjallaranudd“ til að draga úr líkum á rifnun í spönginni (hún rifnaði ekkert hjá mér). Ég las einnig bókina Active Birth eftir Janet Balaskas og þar voru kenndar margar góðar æfingar til undirbúa líkamann fyrir fæðinguna og til að nota í fæðingunni. Það reyndist mér mjög góð lesning og undirbúningur. Höfundurinn mælti líka með meðgöngujóga, en ég var með grindarlos, svo ég gat það ekki og var í meðgöngusundi í staðinn. Fæðingin gekk síðan glimrandi vel. Slökunin og öndunin hjálpuðu mér svo mikið að ég fann fyrir sáralitlum sársauka og þurfti á engum verkjalyfjum eða annarri aðstoð að halda og ég slakaði svo vel á að fæðingin gekk ótrúlega hratt og tók bara tvo tíma frá fyrstu hríð. Þar af fór bara hálftími í kollhríðarnar. Ég mæli líka með því að vera í vatni, það hjálpaði mér mjög og var ósköp notalegt. Þetta var mín fyrsta fæðing. Ljósmóðirin þakkaði þetta góðum undirbúningi.

Kær kveðja, Hypno-mamman.


Kærar þakkir fyrir innleggið - það er alltaf svo gaman að heyra þegar vel gengur.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. september 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.