Grænt legvatn

28.07.2004

Ég eignaðist barn fyrir 2 árum og þá var sagt að legvatnið hefði verið grænt.  Mig langaði til að vita hvað það þýðir. 

..............................................................................................................

Mig langaði að vita hvað það þýðir að hafa verið með grænt legvatn

..............................................................................................................

Sælar og þakka ykkur fyrir fyrirspurnina.

Ég setti þessar tvær fyrirspurnir saman þar sem þær fjalla um sama efni.

Grænt legvatn er yfirleitt saklaust en getur verið merki um að barnið hafi orðið fyrir fósturtreitu á meðgöngunni eða í fæðingunni. Hún gerist vegna skerðingar á súrefnisflæði til barnsins og þá slaknar á þörmunum og það missir hægðir í legvatnið. 

Þegar legvatn er grænt þarf að fylgjast vel með hjartslætti barnsins og er það gert með því að hafa konuna í svokölluðum mónitor (sírita). Fylgst er með fósturhjartslætti með síritun alla fæðinguna. Sjaldnast hefur græna legvatnið nokkur áhrif á barnið og sérstaklega ef hjartsláttarritið er eðlilegt eru litlar líkur á að eitthvað komi upp á hjá barninu. Við fæðingu er yfirleitt nóg að þurrka úr vitum barns en það kemur fyrir að það þurfi að soga úr vitum. Stundum er barnalæknir viðstaddur fæðinguna, það er matsatriði hverju sinni. 

Vona að þetta hafi svarað spurningu ykkar.

                            Yfirfarið, 28.10.2015