Spurt og svarað

09. febrúar 2005

Grindarmæling

Hæ, hæ!

Ég er með eina spurningu um grindarmælingu. Málið er að ég lenti í bráðakeisara þegar ég átti strákinn minn og það stendur í skýrslunni ?Grunur um misræmi?. Þýðir það að ég hefði ekki getað átt hann eðlilega eða? Ég fór sko í bráðakeisara af því að það voru endalausar dýfur í hjartsláttinum hjá honum, ég var alveg komin með fulla útvíkkun og byrjuð að rembast og allt. En það sem ég er að spá í er hvort að það yrði gerð grindarmæling núna út af þessari athugasemd í skýrslunni og hversu nákvæmar þessar mælingar eru?

Kveðja, 15 vikna bumba.

.................................................................................

Komdu sæl og þakka þér fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Það er leiðinlegt að heyra að þú hafir þurft að fara í bráðakeisara síðast, sérstaklega þegar þú varst komin svona langt í fæðingu en stundum er þetta svona og það getur verið erfitt að segja til um ástæðuna.  Þegar talað er um ?grun um misræmi? þá er átt við það að kollur barnsins eða barnið sjálft sé of stórt til að komast í gegn um grind konunnar.  Kannski hefur það átt við í þínu tilviki og af lýsingum þínum að dæma má ætla að kollur barnsins hafi ekki gengið ofan í grindina.  Nú veit ég ekki hversu lengi þú varst búin að rembast eða hvort einhver framgangur var hjá þér.

Verulega hefur dregið úr grindarmælingum síðustu ár og er það vegna þess að það eru skiptar skoðanir um gildi og áreiðanleika mælinganna.  Það eru nefnilega margir aðrir þættir sem hafa áhrif á það hvort kona getur fætt barnið eða ekki. Atriði eins og hvernig barnið ber að grindinni eru mikilvæg, hvort um er að ræða hvirfilsstöðu sem er algengasta staðan eða framhöfuðstaða sem þýðir oftast langdrengar og erfiðar fæðingar.  Einnig er kraftur hríðanna og hríðarmynstrið mikilvægt og síðast en ekki síst er hreyfing konunnar í fæðingu og stellingar mikilvægar því þær geta aukið útgangsmálið um nokkra sentimetra.

Grindarmæling er gerð með röntgen tækni og teknar eru myndir ofan í grindina og undir hana.  Henni fylgir enginn sársauki en merkja þarf með penna ákveðna útgangspunkta.  Loks er mælt hversu víð mjaðmagrindin er, bæði inngangurinn ofan í grindina og útgangurinn úr henni.

Ég hvet þig til að ræða þetta við þína ljósmóður í mæðraverndinni og endilega taktu gömlu skýrsluna þína með þér ef þú átt hana.  Kannski hefur ljósmóðir þín einhverju við þetta að bæta.

Gangi þér allt í haginn.

Yfirfarið 28.okt.2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.