Spurt og svarað

20. maí 2004

Grindarmál

Er einhvernvegin hægt að komast að því hvort að maður sé með of þrönga grind til þess að geta fætt venjulega? Er mjög pen og bæði mamma mín og amma þurftu í keisara vegna of þröngrar grindar. Sést það bara t.d. hjá kvensjúkdómalækni eða eitthvað slíkt?

Kveðja,
Ein í hugleiðingum.

Það er eðlilegt að þú sért að velta þessu fyrir þér vegna fjölskyldusögu þinnar.  Oftast er grind konu nægjanlega stór eða víð til að fæða barn án erfiðleika. Hins vegar getur það komið fyrir, að höfuð barns sé aðeins stærra en venjulega eða grindin á einhvern hátt aðeins minni en venjulega og getur það valdið erfiðleikum við fæðingu.

Talið er lögun grindar geti verið á fjóra mismunandi vegu, sporöskjulaga, egglaga, hjartalaga eða nýrnalaga, sem allar hafa mismunandi innanmál. Mögulegt er að gera grindarmælingu með því að fara í röntgen myndatöku og eru þá mældar fjarlægðir á milli ákveðinna punkta innan á grindinni. 

Þessi mæling er ekki gerð nema fyrirhugað sé að fæða barn í sitjandi stöðu, en skilyrði þess að fæða sitjanda um leggöng er að grindin sé ákveðið stór og að barnið sé ekki of stórt.

Ef barnið er í höfuðstöðu er aldrei gerð grindarmæling, heldur látið reyna á fæðingu og gripið inn í hana ef ekki verður viðeigandi framgangur í fæðingunni. Það eru nefnilega fleiri þættir sem skipta jafnvel meira máli varðandi fæðingu barns um fæðingarveg, svo sem stærð barnsins, hvernig það ber að, kraftur hríðanna og hríðarmynstrið.

Gangi þér vel og takk fyrir fyrirspurnina.

Yfirfarið í maí 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.