Grindarmál

20.05.2004

Er einhvernvegin hægt að komast að því hvort að maður sé með of þrönga grind til þess að geta fætt venjulega? Er mjög pen og bæði mamma mín og amma þurftu í keisara vegna of þröngrar grindar. Sést það bara t.d. hjá kvensjúkdómalækni eða eitthvað slíkt?

Kveðja,
Ein í hugleiðingum.

.........................................................................

Það er eðlilegt að þú sért að velta þessu fyrir þér vegna fjölskyldusögu þinnar.  Venjulegast er grind konu nægjanlega stór eða víð til að fæða barn án erfiðleika. Hins vegar getur það komið fyrir, að höfuð barns sé aðeins stærra en venjulega eða grindin á einhvern hátt aðeins minni en venjulega og getur það valdið erfiðleikum við fæðingu.

Talið er, að til séu fjórar mismunandi gerðir varðandi  lögun á grind hjá fólki. Er þar um að ræða sporöskjulaga, egglaga, hjartalaga eða nýrnalaga grind, sem allar hafa mismunandi innanmál. Það er hægt að gera grindarmælingar varðandi fyrirhugaðan barnsburð og eru þá mældar fjarlægðir á milli  ákveðinna punkta innan á grindinni og eru þær mælingar framkvæmdar með röntgen myndatöku. Það þurfa að vera til staðar lágmarksfjarlægðir á milli punktanna til að fæðing um fæðingarveg sé möguleg eða ráðleg. Er þar átt við inngangsþykktarmál og útgangsþykktarmál. 

Undanfarin ár hefur mjög dregið úr þessum mælingum nema sérstök ástæða sé til og frekar hefur verið látið reyna á fæðingu en gripið inn í hana ef ekki verður framgangur í fæðingunni eftir að hún er farin af stað. Það eru nefnilega fleiri þættir sem skipta jafnvel meira máli varðandi fæðingu barns um fæðingarveg en það eru þættir eins og stærð barnsins, hvernig það ber að, kraftur hríðanna og hríðarmynstrið.

Myndi ráðleggja þér að ræða þetta frekar við ljósmóður í meðgönguverndinni.

Gangi þér vel og takk fyrir fyrirspurnina.

Yfirfarið 19.6. 2015