Spurt og svarað

24. júlí 2005

Hægðalosun móður í fæðingu

Daginn og takk fyrir góðan vef!

Þannig er að ég hef dálitlar áhyggjur af því að ég losi hægðir í fæðingu. Mér finnst tilhugsunin afar óspennandi og niðurlægjandi og vil gjarnan vita hvort það sé eitthvað sem ég get gert til að koma í veg fyrir það. Einnig langar mig að vita hvort það sé algengt að konur missi hægðir í fæðingu. Hef oft heyrt talað um þetta kvenna á milli en svo finn ég engar heimildir um þetta. Mér virðist að það sé algert „taboo“ og þarf af leiðandi enn meira niðurlægjandi. Kannski þið stöllur getið eitthvað hughreyst mig þó ekki sé það byggt á rannsóknum, heldur frekar ykkar reynslu.

Kærar þakkir, Fröken.

..........................................................................

Sæl og takk fyrir að vekja máls á þessu!

Það eru nefnilega mjög margar konur sem hafa miklar áhyggjur af þessu og það er alveg skiljanlegt. Það er hins vegar þannig að við sem vinnum við fæðingar kippum okkur alls ekkert upp við þetta og okkur finnst þetta vera eðlilegasti hlutur í heimi. Ég veit ekki hversu hátt hlutfall kvenna losar hægðir rétt fyrir fæðingu barnsins en það er nokkuð algengt að einhverjar hægðir komi, stundum mikið og stundum lítið. Þetta er bara algjörlega óhjákvæmilegt því þegar kollur barnsins er að koma út þrýstast út þær hægðir sem eru innan við endaþarmsopið.

Náttúran býr reyndar þannig um hnútana að oft verður hreinsun rétt áður en fæðing hefst þ.e. niðurgangur eða mjög mjúkar hægðir og þá eru auðvitað minni líkur á hægðalosun í fæðingu. 

Ef einhverra hluta vegna þarf að framkalla fæðingu er konum oftast boðið upp á „Klyx“ sem er vökvi sem er sprautað með mjóu röri inn í endaþarminn og þá verður losun á hægðum í kjölfarið.

Það sem ég vil ráðleggja þér að gera er að minnast á þessar áhyggjur þínar við ljósmóðurina þína sem sinnir þér þegar þú byrjar í fæðingu. Ef langt er frá hægðalosun þegar þú byrjar í fæðingu gæti verið sniðugt hjá þér að fá „Klyx“ til að losa hægðirnar og þá eru minni líkur á hægðalosun rétt fyrir fæðingu barnsins.

Ég vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.