Spurt og svarað

06. janúar 2009

Hægðir og sprauta í vatnsfæðingu

Góðan daginn.

Ég er komin 39 vikur og 3 daga og býst við að fara af stað hvenær sem er. Fyrri fæðing gekk mjög hratt og vel og í þetta sinn langar mig að nýta mér vatnið á Hreiðrinu eða á fæðingarganginum. En það er tvennt sem ég velti fyrir mér varðandi vatnsfæðingar. Í síðustu fæðingu var útvíkkunin búin á tveim tímum en rembingurinn tók 3 tíma og á rembingstímanum komu svona smá hægðir af og til án þess að ég tæki mikið eftir því. Er það ekki slæmt fyrir barnið að fæðast í vatn sem í hafa losnað hægðir, sbr. að það er ekki talið hollt ef þau gleypa barnabikið í fæðingu? Önnur pæling, nú fékk ég síðast sprautu um leið og fæðing var afstaðin til að hjálpa leginu að dragast saman. Er þessu sleppt þegar maður fæðir í vatni eða er það bara gert seinna og ef svo er, hefur það þá ekki áhrif á hversu hratt legið dregst saman?

Með von um skjót svör. Kærar þakkir.


Sælar!

Gleðilegt ár og takk fyrir fyrirspurnina. Varðandi vatnsbað í fæðingunni getur þú róleg notað vatn í fæðingunni, ef það er það sem þig langar til. Þín góða reynsla af fyrri fæðingu er vonandi boð um góða upplifun í komandi fæðingu.

Ég held að ég geti nánast fullvissað þig um að hægðir verði ekki vandamál varðandi það hvort þú getir fætt í baðinu. Eins og þú segir þá geta komið svolitlar hægðir rétt áður en barnið fæðist, nánast án þess að móðirin verði vör við það. Hvað varðar fæðingu í vatni er það ekki hættulegt fyrir barnið, því barnið mun ekki anda að sér baðvatninu, ef allt er eðlilegt og fæðingin gengur vel og eðlilega fyrir sig. Hins vegar getur það verið „óþægilegt“ fyrir þig, og höfum við ýmis ráð til að fjarlægja lítil spörð úr baðinu svo konan verði sem minnst vör við það. Sumum konum finnst þetta hins vegar mjög óþægilegt og truflandi og hafa beðið um „klyx“ fyrir fæðinguna, til að losa neðsta hluta ristilinn við hægðir. Það getur þú beðið um, ef þú vilt, en það er alls ekki nauðsynlegt og því miður geta stundum konur fengið óþægindi af hægðalosandi lyfjum. En eins og í öllu verður maður að vega og meta þetta sjálfur.  Öðru máli gegnir um barnabik í legvatni, því það getur gefið til kynna að barnið hafi orðið fyrir streitu í móðurkviði og þess vegna kúkað í legvatnið. Þó getur ljósgræn slykja í legvatni, ef kona er komin nálægt 42 vikum, verið eðlileg, þannig að þetta þarf alltaf að meta vel í hvert sinn. Barnabik í legvatni er því frábending á því að fæða í baðvatni, því ef barn er þreytt eða hefur orðið fyrir streitu, getur það verið búið að missa hæfileikann á því að anda ekki fyrr en það kemst í návist við andrúmsloft. 

Varðandi þessa svokölluðu sprautu sem þú minnist á, þá er um að ræða hormónasprautu sem inniheldur hormónið „oxýtosín“ sem dregur saman legið. Það má í raun segja að þetta sé aukaskammtur af „oxýtósín“ sem sé gefið eftir fæðinguna, því líkaminn sjálfur framkallar líka þetta hormón í miklu magni eftir fæðinguna til að draga saman legið. Rannsóknir hafa sýnt að með því að gefa þennan aukaskammt eftir fæðinguna og flýta þannig fyrir fæðingu fylgjunnar, sé hægt að draga úr blæðingum. Á Landspítalanum er þessi hormónasprauta gefin  í flestum fæðingum í því augnmiði að minnka hættu á blæðingum í kjölfar fæðingar, en þó er metin þörf fyrir hana  í sérhvert sinn. Varðandi vatnsfæðingar og þessa tilteknu hormónasprautu eru mismunandi skoðanir á því hvenær og hvort sé þörf á að gefa hana. Ef fæðingin gengur eðlilega fyrir sig, eins og vatnsfæðingar eiga að vera, og lítil blæðing fylgir í kjölfarið er algjörlega inn í myndinni að sleppa því að gefa þessa sprautu og leyfa líkamanum á eigin hraða að losa sig við fylgjuna og gerist það yfirleitt innan 30 mínútna. Ef ljósmóðirin metur það hins vegar svo að þörf sé á því að gefa þessa hormónasprautu er bæði hægt að gefa hana meðan móðirin er í baðinu, eða ef þannig liggur við að móðirin komi upp úr baðinu og fæði fylgjuna á landi. Því miður hefur lítið verið skrifað um þetta og eins og með svo margt í fræðunum skiptar skoðanir. Þú og ljósmóðirin í væntanlegri fæðingu þinni komist svo að sameiginlegri niðurstöðu um hvað sé rétt að gera hjá þér/ykkur.

Með ósk um að allt gangi vel.

Kærar kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.