Spurt og svarað

06. desember 2009

Blæðingar eftir snemmkomið fósturlát

Sælar ljósmæður!

Ég vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef! Hér er hægt að finna svör við nánast hvaða spurningum sem vakna fyrir meðgöngu, á meðgöngu og í mínu tilfelli núna varðandi fósturlát. Þakka ykkur fyrir það :)

En eitt er þó að angra mig sem ég finn ekkert um hér. Málið er að ég missti fóstur fyrir 3 dögum komin tæplega 7 vikur á leið, var búin að vera með rosalega túrverki kvöldið áður og þá kom örlítið blóð. Ég gerði ekki mikið veður útaf því, hélt það væri tiltölulega eðlilegt, að þetta væru bara vaxtarverkir í leginu og að það blæddi vegna viðkvæmni á svæðinu. En kvöldið eftir byrjaði að blæða mjög mikið og kekkir með, og þá áttaði ég mig á hvað væri á seyði. Nú 3 dögum síðar blæðir nánast stanslaust og mikið af kekkjum, eða blóðugu slími með. Er það eðlilegt? Hvað er þetta nákvæmlega sem er að hreinsast út? Var fóstrið umlukið blóði? Ef að legið hafi átt að vera á stærð við greipaldin, finnst mér ólíklegt að þetta mikið magn af blóði og vefjum hafi komist fyrir þarna inni. Mér líður eiginlega betur að vita hvað er að gerast í líkamanum.  Nú er stundum sagt: „ef það blæðir mikið og sárir verkir með ætti að leita til læknis“. Hefði ég leitað til læknis kvöldið áður hefði læknirinn getað komið í veg fyrir fósturlátið?

Kærar þakkir fyrir, gott að geta leitað til ykkar.

Kveðja, Ein ringluð.


Sæl og blessuð!

Einkenni fósturláts eru blæðingar og verkir sem líkjast túrverkjum - en blæðingin er talsvert meiri en á venjulegum blæðinginum og verkirnir jafnvel sárari. Lýsing þín er því alveg dæmigerð fyrir fósturlát og mér þykir leitt að heyra að þú hafir misst fóstur. Þegar fósturlát verður á þessum tíma meðgöngunnar er oftast ekki þörf á aðgerð eða lyfjum til að ljúka meðgöngunni því náttúran sér yfirleitt um að hreinsa burt allan fósturvef. Það getur verið að það blæði í u.þ.b. 10 daga eftir fósturlátið en blæðingin ætti að vera alveg búin á tveim vikum. Það hefði ekki breytt neinu fyrir þig að leita læknis þarna kvöldið áður því það er ekkert sem læknir getur gert á þessu stigi til að koma í veg fyrir fósturlát. Ástæða þess að mælt er með því að leita til læknis ef mikið blæðir eða ef verkir eru mjög sárir er að þá getur þurft að grípa inn í ferlið, annað hvort með lyfjum eða aðgerð til að vernda heilsu konunnar. Það er erfitt að lýsa því nákvæmlega hvað er mikið blæðing en það er eðlilegt að það blæði ríflega miðað við venjulegar tíðablæðingar en það er t.d. of mikið að fylla eitt stórt bindi á einum klukkutíma. Sár verkur sem er öðru megin getur verið einkenni um utanlegsfóstur sem mikilvægt er að greina og meðhöndla sem fyrst. 

Þú skalt hafa samband við lækni ef það blæðir verulega mikið, ef þú finnur fyrir almennri vanlíðan, slappleika eða ert með hita og ef þú ert með það slæma verki að þú þolir ekki við heima. Þér er alveg óhætt að taka inn Panodil og nota hitapoka til að lina verkina.  Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu getur þú haft samband á móttökudeild kvenna á Landspítala á virkum dögum frá 8-16 en utan þess tíma getur þú haft samband við Læknavaktina í síma 1770.

Það blóð sem kemur frá leginu núna er ekki eingöngu sá fósturvefur sem var í leginu fyrir, heldur blæðir einnig frá æðum í leginu - þannig að það er eðlilegt að það komi meira frá þér en sem nemur stærð legsins á þessum tíma.

Hér á vefnum er meiri fróðleikur um fósturlát en ég vona að þetta svari spurningunum þínum.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. desember 2009.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.