Heimafæðing eftir keisara

19.02.2010

Átti mitt fyrsta barn með keisara, eftir langa fæðingu en ég fór í 9 í útvíkkun en þá var talið að ég myndi ekki ná lengra vegna framhöfuðstöðu og því skorið. Ég var þó nokkurn tíma að jafna mig eftir vonbrigðin vegna keisarans, sérstaklega þar sem ég komst svo langt og ein stór ástæða er að nú eru lítill möguleiki að ég hafi einhverja stjórn á næstu fæðingu og lítið um val. Nú er ég komin rúmar 11 vikur með annað barn og finn engar upplýsingar af hverju heimafæðingar eru ekki leyfðar eftir keisara. Hver áhættan er. Veit að kannski helsta ástæðan er legrof sem er jú mjög hættulegt en ekki algengt. En er einhver önnur ástæða? Væri gott að fá einhver svör því mig langar mjög að fæða heima, hef ekki góða reynslu af fæðingunni og sængurlegunni og mér líður best heima hjá mér.

 


 

Það er rétt hjá þér að við mælum ekki með heimafæðingu eftir fyrri keisara og helsta ástæða þess er hætta á legrofi. Það er líka alveg rétt hjá þér að hættan er mjög lítil en þessi staðreynd að hún er til staðar gerir það að verkum að við mælum með fæðingu á sjúkrahúsi þar sem auk ljósmæðra starfa fæðinga- og kvensjúkdómalæknir og/eða skurðlæknir sem hefur þjálfun í bráðafæðingarhjálp, áhaldafæðingum og keisaraskurði og aðgangur er að skurðstofu með svæfingarlækni allan sólarhringinn.

Það að fæða á sjúkrahúsi þarf ekki að koma í veg fyrir að þú hafir stjórn á aðstæðum. Þú hefur áfram ákveðna valmöguleika og það verður örugglega reynt að koma til móts við óskir ykkar eins og hægt er. Vissulega verður fylgst sérstaklega vel með líðan þinni og barnsins í fæðingunni sem þýðir t.d. að við mælum með því að þú verðir meira og minna í „mónitor“ allan tímann. Ef þú fæðir á fæðingardeild Landspítala hefur þú t.d. val um að vera á hreyfingu að nota bað til verkjastillingar því nú eru til þráðlausir „mónitorar“ sem meira að segja þola að vera í vatni.

Ég hvet til að ræða þetta betur við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni við tækifæri.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. febrúar 2010.