Spurt og svarað

13. mars 2011

Heimafæðing og líkur á hjartastoppi o.fl.

Sælar og takk fyrir þennan frábæra vef :)

Nú hef ég átt tvo stráka, annan fæddi ég á spítalanum en yngri fæddist hérna heima. Ein vinkona mín er að velta fyrir sér heimafæðingu og á „Facebookinu“ hennar spruttu upp umræður um heimafæðingar. Hverjar er líkurnar á hjartarstoppi, öndunarstoppi eða einhverju álíka alvarlegu í fæðingu hjá konu sem á eðlilega meðgöngu að baki og fram að þessu, eðlilega fæðingu. Er einhver möguleiki á þessu, eða ástæða til þess að horfa á þetta sem raunhæfan áhættuþátt sem myndi leiða það í ljós að heimafæðing væri ekki æskilegur kostur? Á meðgöngunni sökkti ég mér ofan í ljósmóðurfræðin og las helling af bókum, en ég man ekki eftir því að það hafi verið talað um þessi atriði sem sérstaka áhættuþætti í fæðingu. Það er reyndar að verða ár síðan og þess vegna langaði mig að spyrja ykkur, því þetta kemur oft fram sem „trompið“ í umræðum um heimafæðingar; „eitthvað hræðilegt gæti skeð og þá eruð þið bara heima“. Ef síðan það yrði hjarta -eða öndunarstopp, hvað er þá gert? Er það eitthvað sem aðeins væri hægt að framkvæma á spítala?

Fyrirfram þökk, Ingibjörg.


Sæl Ingibjörg!

Það hefur ekkert breyst varðandi öryggi heimafæðinga. Heimafæðingar eru öruggar fyrir heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu svo framarlega sem þær séu í umsjón fagfólks.

Ég veit ekki hvort þú átt við hjarta- eða öndunarstopp hjá konunni eða barninu, svo ég svara bara hvoru tveggja. Líkurnar á því að heilbrigð kona fari í öndunar- eða hjartastopp í eðlilegri fæðingu eru ekkert meiri en bara gengur og gerist þannig að það er ekki ástæða til að fæða á sjúkrahúsi vegna þess.

Fagfólk sem tekur á móti börnum hvort sem er í heimahúsum eða á sjúkrahúsum er alltaf viðbúið að bregðast við því sem kann að fara úrskeiðis og hefur til þess búnað og þjálfun. Eitt af því sem við erum alltaf tilbúin að takast á við er þegar nýfædda barnið fer ekki að anda af sjálfsdáðum. Það fyrsta sem við gerum þá er að þurrka barninu vel með handklæði (sem er til á öllum heimilum) og það dugar í langflestum tilfellum. Ef það dugar ekki getum við þurft að blása ofan í barnið en til þess er best að nota svokallaðan blástursbelg og maska sem settur eru yfir munn og nef barnsins. Stundum þarf einnig að soga barnið. Þær ljósmæður sem taka á móti börnum í heimahúsum hér á landi hafa meðferðis blástursbelg og maska ásamt búnaði til að soga nýbura, þannig að þær hafa þann búnað sem þarf til að bregðast við öndunarstoppi nýbura. Hjartastopp hjá nýfæddu barni er afar sjaldgæft en meðferðin er blástur og hnoð sem hægt er að veita í heimahúsi þangað til aðstoð berst.

Ljósmæður sem taka á móti börnum í heimahúsum hafa einnig meðferðis lyf til að draga úr blæðingu eftir fæðingu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. mars 2011.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.