Spurt og svarað

14. apríl 2012

Hrædd við seinni keisara

Góðan dag!

Fyrsta barn mitt var tekið með bráðakeisara. Tek það fram að ég var mjög heilsuhraust fyrir meðgöngu í kjörþyngd og fékk enga fylgikvilla á meðgöngunni. Stundaði jóga og almenna útivist. Var gengin 41 viku þegar ég fer af stað við það að missa vatnið sem var kolgrænt. Barnið var óskorðað. Eftir hverja hríð féll hjarslátturinn óeðlilega langt niður og var ákveðið að taka sýni úr kollinum til að fylgjast með súrefnismettuninni. Við þriðja sýni var hún orðin of lág og því ákveðið að taka barnið í hvelli. Þá var ég komin með 7 í útvíkkun og búin að vera með hríðar í u.þ.b. 12 tíma. Barnið fæðist 13 merkur og 51 cm með tvívafinn naflastreng.

Spurning mín er þessi: Er ennþá þetta aukna eftirlit með konum sem eiga að baki fyrri keisara, þó svo mikill niðurskurður hafi verið á heilsugæslu og spítölum? Mig hryllir við tilhugsuninni að fara í annan keisara, vegna allra þeirra kvilla sem geta fylgt honum, sem og hættunni við að verða aftur ófrísk. En mig langar helst í 5 börn. Er eitthvað til í því að vera sett fyrr af stað (39-40 vikur) til þess að minnka líkur á að næsta barn sé búið að losa hægðir í legvatnið. Einnig eru auknar líkur að næsta barn verði með vafinn naflastreng? Eru til einhverjar rannsóknir um hlutfall kvenna sem lenda aftur í keisara eftir fyrri keisara? Afsakið þessa ótal spurningar, þetta er eitthvað sem liggur mér mikið á hjarta, vil ólm geta fætt næsta barn eðlilega.

Kær kveðja, Keisari.


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Þrátt fyrir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu þá hefur ekki dregið úr eftirliti með konum í fæðingu. Sparnaðurinn hefur frekar birst í því að nú kemur fólk t.d. með bleiur og föt á barnið og dvelur í styttri tíma á sjúkrahúsi eftir fæðingu. Kona sem er í fæðingu eftir fyrri keisara er höfð í mjög miklu eftirliti meðan á fæðingunni stendur.

Það eru um 70-90% líkur á því að konur geti fætt um leggöng eftir fyrri keisara. Í þínu tilfelli var ástæða keisaraskurðarins fósturstreita og ólíklegt að þær aðstæður komi upp aftur í næstu fæðingu. Það er ekkert hægt að segja til um líkurnar á því að naflastrengurinn sé tvívafinn og jafnvel þó hann væri það er ekki víst að það myndi skapa vandamál. Það er líka mikilvægt fyrir þig að reyna fæðingu og reyna að komast hjá keisara þar sem þig langar helst að eignast 5 börn því hættan á fylgikvillum í tengslum við keisaraskurð eykst með hverjum keisara. Ég myndi ekki telja það góðan kost að setja fæðinguna af stað fyrr því gangsetning getur líka aukið líkur á keisara þannig að sennilega er best fyrir þig að láta náttúruna hafa sinn gang og vona að fæðingin fari sjálfkrafa af stað næst.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. apríl 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.