Hríðir

03.08.2004

Ég var að velta því fyrir mér að þegar hríðaverkirnir byrja á þá að hringja strax á fæðingardeildina eða bíða eftir að legvatnið fari (ef það fer hjálparlaust), þarf að líða eitthvað ákveðið á milli verkja eða hvað?  Hvenær má maður bruna inn á deild án þess að manni sé sagt að fara heim og bíða eftir hinum og þessum breytingum, þá geti maður komið aftur?
Takk fyrir.

                          .......................................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þú þarft ekki að hringja strax á fæðingadeildina þegar þú byrjar að finna fyrir verkjum.  Þér er óhætt að vera heima í rólegheitum þar til hríðarnar verða reglulegar á 4-5 mín. fresti og vara í 45-60 sek.  Þetta tímabil getur tekið marga klukkutíma sérstaklega ef þú ert að fæða í fyrsta sinn. 

Legvatnið getur farið hvenær sem er á útvíkkunartímabilinu og ef það gerist heima skaltu hringja á fæðingardeildina og láta vita af þér. 

Annars eru konur komnar mislangt í fæðingu þegar þær koma á fæðingarstað og sumum er ráðlegt að fara heim aftur. Það er enginn skömm af því að fara aftur heim og þá veit maður hver staðan er og er kannski rólegri heima í einhvern tíma á eftir.

Gangi þér vel.

Yfirfarið, 28.10. 2015.