Hríðir eða fyrirvaraverkir

26.04.2005
Sælar!
Ég er gengin 40 vikur og hef núna þrisvar  í seinustu viku fengið mjög ákveðna hríðaverki, þ.e. verki í bak og niður læri með mjög reglulegu millibili lengur en 4 tíma í senn. Verkirnir lýsa sér sem eins konar mjög slæmir "túrverkir" sem vara í nokkrar mínútur í senn og ná síðan "toppi" áður en þeir hjaðna aftur. Þessi verkir koma eftir samfarir og vara í 3-6 tíma og ágerast á því tímabili en hjaðna síðan aftur. Ég hef hringt upp á fæðingardeild í þessu ástandi og ljósmóðir þar taldi víst að fæðingin væri að byrja. Samt hefur alltaf slaknað á þessu aftur, mér til mikilla vonbrigða. Ég tel þó víst að barnið hafi færst ennþá neðar í mjaðmagrindina eftir svona köst. Er þetta eðlilegt? Það er getur fæðing farið svona af stað og stoppað síðan dögum saman eða ætti ég að hafa áhyggjur af þessu?

Með þökk fyrir góðan vef!
                            
                  ........................................................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu.  Þetta eru fyrirvaraverkir en þeir lýsa sér einmitt alveg eins og hríðarverkir nema þeir hjaðna og hætta í stað þess að verða verri með tímanum.  Það er ekki ólíklegt að barnið fari neðar í grindina við þessa verki og samdrætti og er það bara af hinu góða.  Einhvern daginn hætta verkirnir ekki og þá ertu byrjuð í fæðingu.
 
Gangi þér vel
 
 
Yfirfarið 28.okt.2015