Hvar er faðirinn í fæðingunni ?

02.09.2009
Sælar!

Hvar er faðirinn staddur í fæðingunni? Við hliðina á mér eða horfir hann á allt saman, allt sem gerist þarna niðri? Mér finnst þetta mjög óþægileg og niðurlægjandi tilhugsun.

Ég hef miklar áhyggjur af fæðingunni og myndi helst ekki vilja að neinn myndi horfa á mig og á allt þettaniðurlægjandi móment áður og á meðan að barnið fæðist. Get ég farið fram á að hann verði algjörlega og eingöngu við hlið mér í staðinn fyrir að sjá hvað er nákvæmlega að gerast þarna niðri?

Ég vil alls ekki heldur að neinar myndir séu teknar og að mæður okkar séu ekki nálægt, er ekki örugglega hlustað á allar mínar óskir varðandi þetta? Ég tek það fram að við pabbinn erum ánægð saman og eigum ekki í neinum vandræðum, ég hef bara miklar áhyggjur af þessum degi sem nálgast óðum.

Kveðja,

ein mjög áhyggjufullSæl

Algengast er að faðirinn standi við höfðagaflinn hjá konunni á þeim tímapunkti sem barnið fæðist. Þetta er þó misjafnt og sumir pabbar hafa gaman af því að sjá kollinn þegar hann er að koma. Standi pabbinn við höfðagaflinn sér hann ekki hvað gerist og þú skalt nefna þetta við ljósmóðurina sem sinnir ykkur í byrjun fæðingarinnar. Hún getur þá haft þetta í huga varðandi stellingar og fleira. Þú getur til dæmis fengið lak eða teppi yfir þig.

Það er mikið kappsmál fyrir ljósmæður að vernda friðhelgi einkalífsins hjá þeim konum sem þær sinna. Þið tvö ráðið því sjálf hver er viðstaddur fæðinguna og hvort það verða teknar myndir. Það er alveg öruggt að ef ljósmóðirin veit hvernig þér líður þá mun hún passa upp á þessi atriði.

Það væri því mjög sniðugt fyrir ykkur tvö að ræða málin og skrifa niður þessar óskir þínar um hvernig umgjörðin er í fæðingunni. Þið getið svo annað hvort sagt ljósmóðurinni frá því eða gefið henni skriflegan óskalista.


Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Harpa Ósk Valgeirsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. september 2009.