Spurt og svarað

25. mars 2008

Hvað er legbrestur?

Hvað er legbrestur? Ég heyrði að konur þyrftu að þekkja mun á legbresti og fæðingarhríðum. Er þetta algengt hjá konum sem hafa fætt með keisara.


Legbrestur er eins og orðið bendir til brestur eða rof í leginu. Þetta er lífshættulegt ástand bæði fyrir móður og barn. Mesta hættan á legbresti er hjá konum sem eru í fæðingu og hafa áður farið í aðgerð á legi eða keisara. Tíðni legbrests hjá konum í fæðingu eftir fyrri keisara er innan við 1% svo þetta er langt frá því að vera algengt hjá þessum hópi.

Helstu einkenni legbrests eru staðbundinn sár verkur og breytingar á hjartslætti barnsins. Það getur einnig blætt óeðlilega mikið frá leggöngum. Konur sem fæða eftir fyrri keisara eru í stöðugu eftirliti í fæðingunni og það er fylgst mjög vel með hjartslætti barnsins og líðan konunnar til að hægt sé að greina þetta ástand um leið. Konan er einnig fastandi ef gera þarf keisaraskurð í skyndi. Ef legbrestur verður þegar kona er í fæðingu á sjúkrahúsi er gerður neyðarkeisari og þá tekst í flestum tilfellum að bjarga barni og móður.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.