Hvað er sótt?

12.01.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég geng með mitt annað barn og er sem aldrei fyrr alveg svakalega forvitin um allt fæðingarferlið. Kannski einmitt sérstaklega af því ég er svolítið kvíðin. Í nokkrum greinum er talað um að ?sótt geti fallið niður? eða eitthvað slíkt. Hvað er sótt? Er þetta eitthvert ástand sem allar konur upplifa í fæðingu? Og ef hún fellur niður, verður fæðingin þá langdregnari á einhvern hátt?

Takk fyrir mig.

........................................................................................

Komdu sæl!

Þegar talað er um sótt er átt við jóðsótt, sem eru fæðingarhríðir. Orðið sótt er því stytting á jóðsótt, þar sem orðið jóð merkir nýfætt barn eða afkvæmi og sótt merkir veikindi. Það má því líkja þessu við ástand sem vissulega flestar konur upplifa í fæðingu. Fæðingarhríðir geta byrjað og hætt í einhvern tíma og byrjað svo aftur eftir einhverjar klukkustundir eða daga. Þetta gerist oftast í upphafi fæðingar eða sem aðdragandi fæðingar, þegar sóttin er að byrja að fara í gang og hríðar hvorki orðnar verulega kröftugar né mjög reglulegar eða stutt á milli þeirra. Sjaldnast dettur sóttin niður þegar hún er komin í virkan fasa þ.e.a.s. þegar leghálsinn er farinn að breytast (styttast/þynnast, mýkjast og/eða opnast) verulega. Eðlilega geta sumar konur upplifað fæðinguna ?langa?, ef gangurinn er skrykkjóttur í byrjun, áður en konan kemst í virkan fasa.

Vona, að þetta svari fyrirspurninni og gangi þér vel að fæða.

Yfirfarið 27. janúar 2016