Spurt og svarað

16. apríl 2015

Hvað gerist í fæðingunni!!

Góðan dag, Ég á von á mínu fyrsta barni eftir 7 vikur og því nær sem dregur fæðingu því fleiri spurningar koma upp í hugann og ég virðist ekki geta fundið svar við þeim á þessum vef né neins staðar annars staðar. Það sem ég er að leita að er upplýsingar um ferli fæðingar.


 Heil og sæl, bréfði frá þér var of langt til að hægt væri að birta það allt. Ég skal reyna að svara þér en vandinn er að þetta er ekki alltaf alveg eins. Það fer eftir á hvaða stigi fæðingar þú kemur inn og einnig vinna ekki allar ljósmæður alltaf eins. Þegar þú telur fæðingu byrjaða er gott (ef þú ert í eðlilegri meðgöngu) að taka því rólega heima og sjá til hvert stefnir. Það er viss stígandi í fæðingu – það myndast  viss regla bilið milli hríða verður reglubundið hríðar verða ákafari og styttra verður á milli. Þegar eru ca. 3-5 mín. á milli hríða og hver hríð stendur meira en í 30 sek.er tímabært að fara á fæðingarstað. Þar tekur ljósmóðir á móti þér og býður þér inn á skoðun. Þar mælir hún blóðþrýsting og hita og skoðar útvíkkun. Útvíkkun er mæld þannig að ljósmóðir setur tvo fingur í leggöngin og finnur leghálsinn sem hún metur svo bæði mýkt leghálsins  hvar hann  er staðsettur og hve langur hann er og hve opinn og hvar kollur barnsins er í grindinni. Það fer eftir því hvað kemur út úr þeirri skoðun hvað gerist næst. Hugsanlega verður þú send heim ef fæðing er mjög stutt komin. Ef þú ert komin nokkuð áleiðs í fæðingunni verður þér boðið inn á fæðingastofu og það er misjafnt eftir stofum hvernig rúmið snýr. Þú mátt vera í þínum eigin fötum. Reglan er sú að það er einungis ein ljósmóðir viðstödd en í lokin rétt áður en barnið fæðist hringir hún á aðra ljósmóður sem kemur inn í lokin oftast nær. Ef hægt er máttu ráða þeirri stellingu sem þú fæðir í. Þú getur beðið ljósmóðurina um að nota yfirbreiðslu eftir því sem hægt er. Flestar ljósmæður halda við spöng og endaþarm þegar höfuð barnsins er farið að þrýsta vel á. Nei flestar ljósmæður reyna að skoða um leggöng eins sjaldan og hægt er. ÞAð fer svolítið eftir framgangi fæðingarinnar hve oft er skoðað. Reglan er sú að móðirin fær barnið í fangið þegar það er fætt en foreldar geta auðvitað farið fram á það sem þau vilja og ef hægt er er komið til móts við það. Hversu langur tími líður þar til kona er klædd fer mikið eftir því hve langur tími líður þar til fylgja fæðist og hvort og hve mikið þarf að sauma. Hafðu í huga að þetta er alls ekki tæmandi né einhlítt og ráðlegg ég þér að ræða við þína ljósmóður í mæðravernd um þetta allt. Gangi þér vel
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.