Spurt og svarað

03. apríl 2006

Hvað gerist þegar við fáum hríðir?

Hæ!

Núna er ég komin á viku 39 og er eiginlega bara orðin svo stressuð. Málið er að þetta er annað barn, og með fyrra barnið var ég sett af stað þegar ég var komin 16 daga fram yfir. Það er svo sem ekkert frá sögu færandi, nema að núna er ég alltaf að fá svona „komment“; „já þú ert ein að þeim sem gengur 42 vikur“; „þú kannski bara getur ekki átt barn, það er komið hríðunum af stað“; „já, þú ert ein af þeim sem gengur alltaf fram yfir“. Og bæði að vera frekar viðkvæm fyrir og plús það að vera extra viðkvæm núna, þá fer ég alltaf að gráta þegar svona er sagt við mig. Ég hef átt eitt barn sem þurfti að setja af stað fæðinguna, þannig að ég veit ekki hvort þetta sé bara þá (annar barnsfaðir en núna) eða ég sé bara svona „gölluð“. Langar mig að bæta við, þegar ég var á leiðinni upp á fæðingardeild þarna á sunnudagskvöldi, var ég byrjuð að finna einhverja verki í maganum, en þar sem ég hef nú ekki mikla reynslu á þessu, þá gæti þetta hafa verið allt annað. En út frá þessum hugsunum mínum, hef ég verið að pæla hvað er það sem gerist í líkamanum sem lætur okkur fá hríðir, sem eru þá ekki fyrirvaraverkir, heldur þessar alvöru hríðir ? Einnig tengist þetta eitthvað, það er að með fyrra barn fann ég aldrei fyrir þessum fyrirvaraverkjum, en núna er ég að finna þá á hverjum degi. Tengist það saman? Og að lokum, þarf það að vera að þar sem ég gekk svona fram yfir með fyrra barn, að það sama gerist með seinna barn? Ljósmóðirin mín núna sagði að ég mætti alveg gera mig undirbúna til að ganga svona viku fram yfir. Er það þá eitthvað sem hún veit af reynslunni, svona með því að meta út frá stærð fóstursins og þannig? Hann var um 2900 grömm þegar 37 vikur voru liðnar.

Ég vona svo innilega að einhver getur róað taugarnar mínar.

Kveðja frá Danmörku.


 

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Það er leitt að heyra af líðan þinni. Mér finnst líka leitt að heyra hvernig fólk er að koma með athugasemdir um að þú eigir nú örugglega eftir að ganga fram yfir með þetta barn. Þetta fólk veit ekkert um það hvað þú átt eftir að ganga lengi með barnið þitt og ætti því ekkert að vera að koma með einhverjar órökstuddar fullyrðingar um það. Engin meðganga er eins og engin fæðing er eins, þetta getur orðið allt öðruvísi heldur en þetta var síðast eða þetta gæti orðið svipað.

Það eru til konur sem þarf alltaf að setja á stað, ég man til dæmis eftir einni sem á 6 börn og í hvert einasta skipti þurfti að setja hana af stað við 42 vikur vegna þess að hún sýndi engin merki um það að vera að byrja í fæðingu. Þegar það var svo búið að koma henni af stað fæddi hún börnin sín með þvílíkum glæsibrag að allar konur hefðu verið stoltar af, þetta kalla ég nú ekki að vera „gölluð“ eins og þú orðar það, síður en svo!!!  Það eru líka til konur sem eru settar af stað með fyrsta barn en svo þarf aldrei að setja þær af stað aftur. Það er allur gangur á þessu.

Ég veit að þegar maður er viðkvæmur þá er erfitt að taka svona athugasemdum frá fólki, en mig langar að fullvissa þig að ekkert af þessu fólki veit neitt um það hvernig og hvenær fæðingin þín fer af stað og þú skalt bara vera róleg og hugsa að þetta kemur bara þegar það kemur og þó svo að það þurfi að setja þig af stað þá er það nú bara alls ekki svo slæmt. Fyrirvaraverkirnir sem þú ert með eru að vinna undirbúningsvinnu fyrir fæðinguna, þeir hjálpa til við að undirbúa leghálsinn og þeir eru eðlilegt merki um að legið sé að undirbúa sig fyrir það sem framundan er. Hvort þeir séu merki um að þú komir til með að fara sjálf af stað í þetta skipti er erfitt að segja en það gæti verið.

Ég vildi að ég gæti sagt þér hvað það er sem gerir það að verkum að fæðing fer af stað, þetta er flókið lífeðlisfræðilegt ferli í líkamanum, sennilega samspil á milli móður og barns, og í sumum tilfellum utanaðkomandi þátta. Ef ég væri með þetta svar á hreinu þá væri ég sennilega búin að fá Nóbelsverðlaun!!

Mig langar að hvetja þig til að vera ekki að hlusta á það sem fólk í kringum þig hefur um þetta að segja og vera bara róleg og bíða eftir barninu þínu, þegar þú og það eruð tilbúin þá kemur það, þó svo að það þurfi smá aðstoð til að ýta ykkur af stað. Njóttu nú bara síðustu daganna áður en þú verður tveggja barna móðir og gerðu hluti sem þú getur ekki gert þegar þú ert komin með lítið kríli.

Og í lokin, í guðanna bænum ekki hugsa um sjálfa þig sem „gallaða“ það er orð sem á sko ekki við! Þú ert búin að láta lítið barn vaxa inni í þér í næstum því níu mánuði, það er sko þvílíkt afrek, og ekki á allra færi.

Með bestu óskum um gott gengi,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
3. apríl 2006.

Yfirfarið, 27. janúar 2016

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.