Spurt og svarað

05. janúar 2009

Hvað má líða langur tími frá fæðingu og þar til klippt er á strenginn?

Langaði að forvitnast um hvað má líða langur tími frá því að barnið er fætt og klippt er á strenginn, t.d. ef fæðing á sér stað á leið á spítalann og enginn sé á staðnum sem kann að taka á móti. Hef aldrei fylgst með því hvernig klippt er á strenginn. Á tvö börn og var hann vafinn í bæði skiptin og fékk maðurinn minn ekki að klippa á. Er fljót að fæða og á von á því þriðja eftir 3 vikur. Hef leitað á vefnum en ekkert séð um þetta efni.

Vildi hafa varann á maður veit aldrei. Takk, með von um svör.

 


 

Sæl og blessuð!

Ég vona að ég geti róað þig með því að segja að það liggur ekkert á að skilja á milli. Það tíðkast t.d. hjá ákveðnum þjóðflokkum að skilja alls ekki á milli en láta fylgjuna fylgja barninu þar til strengurinn losnar frá (eftir nokkra daga). Ég er nú ekkert að mæla með því en það er gott að vita að þetta er í lagi.

Ástæða þess að mjög oft er skilið á milli strax eftir fæðingu er sú að verið er að beita svokallaðri virkri meðferð á þriðja stigi fæðingar (fylgjufæðing). Virk meðferð er talin draga úr líkum á blæðingu móður eftir fæðingu og felur oftast í sér að skilið er snemma á milli, gefið samdráttarlyf með sprautu í vöðva eða í æð og léttu togi er beitt á naflastrenginn þar til fylgjan er fædd. Andstaðan við virka meðferð er að láta náttúruna ráða ferðinni en þá er ekki skilið á milli fyrr en fylgjan er fædd, ekki gefið samdráttarlyf og engu togi er beitt á naflastreng. Stundum er farið þarna mitt á milli með því að skilja á milli þegar sláttur er hættur í streng.

Það sem við vitum er að mjög líklega erum við að draga úr blæðingum hjá mæðrum með því að beita virkri meðferð en við vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur fyrir börnin. Blæðing eftir fæðingu getur vissulega verið alvarleg og því má ekki vanmeta þessar aðgerðir til að draga úr blæðingum. Það er þó ekki þar með sagt að beita þurfi virkri meðferð á þriðja stigi hjá öllum konum. Það er t.d. mjög líklegt að legið dragi sig saman að sjálfu sér þegar fæðing hefur gengið hratt og vel fyrir sig. 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.