Hvenær er egglos í 32 daga tíðahring?

23.09.2004

Kona hefur egglos á 14. degi tíðahrings miðað við 28 daga. Tíðahringurinn hjá mér er 32 dagar en mig langar að vita hvort egglosið gerst þá fyrr eða eftir. Þá er ég að tala um 4-5 daga. Síðustu blæðingar voru hjá mér 12. ágúst og ég var hjá lækni sem skoðaði mig (ómskoðun) og hann sagði að ég væri komin rétt undir 6 vikur en hann hefur séð stærðina á fóstrinu. Hvenær átti getnaður sér stað?

.................................................................

Sæl!

Ef tíðarhringurinn þinn er 32 dagar þá ætti egglos hjá þér að vera í kringum 16. dag tíðahringsins, þannig að ef blæðingar byrjuðu síðast þann 12. ágúst þá reiknum við það sem fyrsta dag tíðahrings og þá ætti egglos að hafa orðið í kringum 28. ágúst, og þá hefur getnaður orðið um það leyti. Ef læknir segir þér þann 21. september (þegar þú skrifar fyrirspurnina) að þú sért komin aðeins minna en 6 vikur miðað við stærðina á fóstrinu, þá stemmir það við blæðingarnar. Getnaður hjá þér hefur þá væntanlega orðið í kringum 28. ágúst, en samfarir 1 til 2 dögum fyrir eða eftir egglos, getur leitt til frjóvgunar, því sæðið lifir í svolítinn tíma eftir að það er komið inn í þig. Vonandi skýrir þetta eitthvað fyrir þér og gangi þér sem allra best.

Yfirfarið, 28.10. 2015