Spurt og svarað

30. júlí 2007

Hvenær sólarhringsins fara konur oftast af stað?

Er til einhver tölfræði yfir það hvenær dags konur fara oftast af stað? Er t.d algengara að hríðir byrja á næturnar þegar konan er í hvíld eða virkar þetta einmitt öfugt, þ.e. að konur fari frekar af stað eftir erfiðan dag? Ég er komin 39 vikur á leið og við hjónin vorum að velta þessu fyrir okkur.

Kveðja, HB.


Kæra HB!

Takk fyrir spurninguna, sem ég satt að segja hef átt svolítið erfitt með að finna vísindaleg svör við. Ég kemst einna næst því að finna svar við spurningunni með hjálp hinnar svokölluðu líkamsklukku, en þar er að finna tengingu við það hvenær „líklegast” sé fyrir konur að byrja í fæðingum.

Oft er talað um að líkaminn vinni eftir ákveðinni 24 klukkustunda líkamsklukku þar sem líkamsstarfsemin fylgir ákveðnu hringlaga mynstri og þar er fleira týnt til heldur en hinn eðlilegi rytmi sem tengist svefn og vöku. Það sem er áhugavert í því samhengi er t.d. að mörg einkenni krónískra sjúkdóma fylgja þessari „klukkustarfsemi”. T.d. hefur verið sýnt fram á það í þekktri langtímarannsókn (Framingham rannsóknin sem byrjaði árið 1948)  um eðli hjartaáfalla og hjartasjúkdóma að það sé 70% meiri áhætta að verða fyrir hjartaáfalli á milli klukkan 7 og 9 á morgnana, astmaköst koma frekar upp í dögun og mun meiri áhætta er á að fá heilablóðfall á morgnana heldur en á öðrum tímum dagsins.

Sumir halda því sem sagt fram að þessi ákveðna „höfuðklukka” sem á sér bólsetu í heilanum og hefur áhrif á hormónaflæði, líkamshita o.s.frv. hafi líka með það að gera hvenær á sólarhringnum við fæðumst ... og of út í það fer líka hvenær við deyjum. Samkvæmt þessari kenningu er „tímasetning” hormóna sem koma af stað fæðingu líklegust að ná hámarki á  nóttunni, því það er þá sem móðir og væntanlegt barn hennar eru í bestu skjóli og óhultar fyrir hugsanlegri utanaðkomandi árás (þróunarkenningarpæling um frumkonuna). Þá er einnig týnt til að rannsóknir hafi sýnt fram á að eðlilegar fæðingar eigi sér frekar stað eftir miðnætti og snemma á morgnana heldur en síðdegis (ég hef hins vegar ekki fundið þessar rannsóknir sjálf sem vitnað er í). En spurningin þín hljómar auðvitað upp á það hvenær konan fer af stað og samkvæmt frumkonukenningunni er það líklega öruggast að það gerist í skjóli nætur, en auðvitað eru þetta bara vangaveltur. Þá styðja reynslumiklar ljósmæður sem ég spurði að tilfinning þeirra væri að  tími fæðingarinnar sé helst seinni part nætur og byrjun dags....

Vona að ykkur gangi vel.

Kærar kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
30. júlí 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.