Blæðir með jákvætt þungunarpróf

10.09.2007

Sælar ljósmæður. Ég var búin að vera með hormónalykkjuna í 3,5 ár án blæðinga. Fyrir um mánuði síðan fékk ég mikla túrverki og blæðingar svo ég lét fjarlægja hana. Alla daga eftir það hefur verið einhver blæðing.  Stundum alveg tært blóð en stundum brúnleitt.
Fyrir viku síðan tók ég þungunarpróf því mér fannst ég komin með fullt af einkennum þess að ég væri ólétt fyrir utan þessar blæðingar. Og það reyndist jákvætt. Eftir það hefur haldið áfram að koma blóð og núna er ég líka með túrverki.
Ég tók annað þungunarpróf núna viku seinna og það er líka jákvætt. Ég er búin að lesa á vefnum ykkar að blæðingar á meðgöngu séu oft tengdar harðlífi eða samförum en það á ekki við í mínu tilfelli.
Er þetta eðlilegt? Ætti ég að fara í "snemmómskoðun"? Eða á ég að taka bara þungunarpróf á viku fresti og halda áfram að blæða?

kveðja,
Ein blæðandi


 

Nei ég myndi ekki talja þetta eðlilegt svo ég ráðlegg þér að fara til læknis og tala um þetta við hann.  Þú getur annað hvort farið til heimilislæknis eða til fæðinga og kvensjúkdómalæknis.  Margir þeirra hafa sónartæki á stofunni sinni og geta þá skoðað þig þannig ef ástæða er til.  Ég veit að það getur verið löng bið að komast að hjá kvensjúkdómalæknum en ég hef heyrt að það sé hægt að komast fljótt að hjá þeim í Læknalind í Kópavoginum (annars sjálfsagt að reyna að komast að hjá þínum lækni ef þú hefur einhvern sérstakan).

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10.09.2007.

Komdu sæl