Spurt og svarað

01. mars 2008

Hversu snemmma má gefa mænurótardeyfinguna?

Ég fletti í gegnum fyrirspurnirnar á síðunni ykkar en fann ekki alveg þær upplýsingar sem ég var að leita eftir svo ég ætla að prófa að skjóta þessu til ykkar. Núna er ég í áhættumeðgönguvernd  á Landspítala vegna meðgöngueitrunar með fyrra barn og sjúkdóma sem ég er búin að þróa með mér síðan ég átti síðast. Læknirinn minn setti það í skýrsluna mína síðast þegar ég var í mæðraverndinni að þegar ég væri að fara að fæða ætti ég að fá mænurótardeyfingu snemma til að áreynslan yrði lítil sem engin hjá mér í fæðingunni. Hversu snemma er deyfingin gefin eða hvað þarf útvíkkun að vera komin langt? Er það rétt hjá mér að hún sé aldrei gefin fyrr en konan er komin með 4 í útvíkkun? Málið er bara að mig langar svo að eiga eðlilega og sleppa við það að fara í keisara en ég má alls ekki upplifa of mikla áreynslu í fæðingunni vegna bráðaofnæmis við áreynslu. Ég myndi spyrja læknirinn minn að þessu en hún er komin í frí núna í einhvern tíma og ég mun ekki hitta hana á næstunni.Vonandi getið þið eitthvað varpað ljósi á þetta fyrir mig.

Takk fyrir

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Fölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á notkun mænurótardeyfingar í fæðingum gegnum árin sem hefur gert það að verkum að örar breytingar eru á því verklagi sem stundað er hverju sinni, allt eftir því sem þekkingu fleygir fram. Það er alveg rétt hjá þér að mælst hefur verið til þess að konur bíði með að fá mænurótardeyfingu þar til útvíkkun á leghálsi er orðin 4-5 sm. Rannsóknarniðurstöður eru misvísandi hvað þetta varðar auk þess sem  rannsakendur eru ekki á eitt sáttir um aukaverkanir deyfingarinnar. Fram kemur í nýlegum heimildum að óhætt er að gefa konum mænurótardeyfingu snemma í fæðingu eða þegar konan sjálf óskar eftir því eða ef læknisfræðilegar ástæður liggja að baki eins og í þínu tilfelli. Þar er bent á að notkun mænurótardeyfingar snemma í fæðingu auki ekki líkur á keisarafæðingu, eins og þú hefur greinilega áhyggjur af.

Að lokum vil ég nefna að mikilvægt er fyrir þig að ræða þetta við lækninn þinn í meðgönguverndinni á Landspítalanum þar sem ég veit ekki hvað sjúkdómar það eru sem þú ert búin að þróa með þér síðan á síðustu meðgöngu og einnig vegna bráðaofnæmis sem þú ert með. Þú ættir að reyna að hafa ekki áhyggjur af framgangi fæðingarinnar, heldur trúa og treysta á eigin líkama og fá mænurótardeyfingu þegar þér finnst vera þörf á því. Mikilvægast er fyrir þig að hugsa um hvað sé þér og litla krílinu þínu fyrir bestu.

Með von um að allt gangi vel hjá þér!

Kær kveðja,

Þórunn Pálsdóttir, ljósmóðurnemi
og
Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir,
1. mars 2008.

Heimildir

Kuczkowski, K. M. (2008). Timing of induction of labor analgesia: what does an obstetrician need to know? Acta Obstetricia et Gynecologica, 87, 6-7.

Nageotte, M. (2006). Timing of conduction analgesia in labor. American Journal of Obstetrics and Gynecology, 194, 598-599.

NICE clinical guideline. (2007). Intrapartum care. Care of healthy women and their babys during childbirth. Sótt 25. febrúar 2008 af http://www.nice.org.uk/nicemedia/pdf/IPCNICEGuidance.pdf.

Ohel, G., Gonen, R., Vaida, S., Barak, S., og Gaitini, L. (2006). Early versus late initiation of epidural analgesia in labor: Does it increase the risk of cesarean section? A randomized trail. American Journal of Obstetrics and Gynecology, 194, 600-605.

(Aðalbjörn Þorsteinsson. Yfirlæknir á svæfingardeild Landspítalans. Viðtal á Barnaland.is um verkjastillingu í fæðingu).

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.