Hvert er hlutfall kvenna sem rifnar í fæðingu?

26.01.2007

Sæl!

Er að velta fyrir mér hvert hlutfall kvenna sem rifnar í fæðingu er. Mér finnst þetta frekar ógnvekjandi tilhugsun þar sem það styttist í fæðingu hjá mér. Kemur það fyrir að konur rifni ekki neitt? Virkar þessi spangaolía eitthvað sem seld er í apótekum?

Takk, takk.

Kveðja, ein á steypinum.


Sæl og blessuð!

Samkvæmt tölfræðinni þá fá 65-85% kvenna einhverjar rifur í fæðingunni.  Rifur eru flokkaðar í 4 flokka eftir því hversu alvarlegar þær eru, 1° rifur eru minnstar en 4° rifur stærstar. Í einni rannsókn þar sem 5404 konum voru í úrtaki kom fram að 14% kvennanna sem voru með heila spöng, 29,9% kvennanna fengu 1° rifu, 36,4% fengu 2° rifu. Þær konur sem fengu eingöngu rifu á burðarbarma voru 7,9% og 1,3% fengu 3°- og 4° rifur alls.

Það er talið að spangarnudd með olíu geti minnkað líkur á rifum en það er fjallað nánar um það hér í annarri fyrirspurn.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. janúar 2007.