Spurt og svarað

16. maí 2007

Keiluskurður - áhrif í fæðingu

Keiluskurður - áhrif í fæðingu

Góðan daginn og takk fyrir gagnlegan og góðan vef.

Mig leikur smá forvitni á að vita hvernig það er með konur sem hafa farið minnst þrisvar í keiluskurð og þar með búið að stytta leghálsinn svolítið mikið eru konur i einhverri meiri áhættu en aðrar? Hef heyrt að leghálsinn hætti að senda rétt skilaboð vegna skerðingar að ýmist opnist hann of ört eða bara ekki neitt. Ég hef farið i þrjá og geng núna með annað barnið mitt en þegar ég átti fyrri stelpuna mína þá missti ég vatnið fékk enga verki. Fékk aldrei fyrirvaraverki. Það var reyndar alveg kolgrænt og ég fór á sjúkrahúsið og var sett í mónitor og ekkert gerðist - allt stopp í 3 í útvíkkunn og ég man bara að ég vildi bara fá að rembast. Klukkutíma seinna var ég skorinn og litla skinnið var þá búið að vefja sig svona í naflastrenginn að hún var að kafna. Getur keiluskurðurinn brenglað þessi boð? Hef ekki fengið að vita það. Heldur þú að þarna hafi eitthvað svoleiðis átt sér stað. Með von um svar. Er nefnilega með öðru barni og genginn 36 vikur hef enga verki fengið eins og síðast meina þá svona fyrirvaraverki og orðinn pínulitið óörugg eftir síðustu reynslu.

Með fyrirfram þökk, Solla.


Sælar og takk fyrir að leita til okkar
 
Oft sér maður aðeins öðruvísi gang á fæðingunni þegar konur hafa farið í keiluskurð. Það er þá helst að það komi hægur gangur í útvíkkunarferlið en svo gerast hlutirnir hratt.  T.d. hefur maður séð að konur hanga aðeins með útvíkkunina í t.d.5 en svo klárast hún skyndilega og konan getur farið að rembast. Ástæðan er yfirleitt, að þá gefur örvefurinn sig, sem hefur myndast eftir keiluskurðinn.  Ég held ekki að það hafi verið ástæðan fyrir því að þú hafir farið í keisara með þitt fyrra barn heldur getur ástæðan þar verið að kollurinn hafi ekki borið rétt að í grindinni og það getur truflað útvíkkunarferlið einnig gæti hafa verið fósturstreita miðað við þessa sögu.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni og gangi þér vel.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. maí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.