Spurt og svarað

06. júní 2006

Keisari aftur?

Hæ og takk fyrir æðislegan vef.

Ég er ólétt í annað sinn og hin meðgangan endaði með keisara,málið er að ég var að horfa á Fyrstu skrefin og þar var verið að fylgjast með konu að fara i keisara í annað sinn. Fæðingarlæknirinn sagði að þegar að konur eru einu sinni búnar að fara í keisara að þá myndi það endurtaka sig. Mig langar ekki til að fara í keisara aftur en ég er með ör á leginu út af keisaranum og er ekki hætta á því að það rifni einfaldlega í fæðingu út af örinu? 

Ein áhyggjufull.


Komdu sæl, og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is.

Ég horfði á þennan þátt um keisarafæðingu nú á netinu og það er rétt að fæðingarlæknirinn sagði í upphafi þáttarins að ef konan hefði farið í keisarafæðingu þyrfti hún að fara aftur í keisarafæðingu. Ég held því miður að annað hvort hafi eitthvað verið klippt af svari fæðingarlæknisins, eða að fæðingarlæknirinn hafi verið að tala um þessa ákveðnu konu sem var í þættinum. Eftir því sem konan sagði sjálf fór hún í keisarafæðingu þar sem talið var fullvíst að hún hefði grindarþrengsli og gæti ekki fætt eðlilega, en það er ein orsök fyrir keisarafæðingu. Ég get a.m.k. fullyrt að það er ekki rétt að kona sem einu sinni hefur farið í keisarafæðingu þurfi að fara aftur í keisarafæðingu. Í þessu samhengi eru ýmsir þættir sem  hafa áhrif, en ein algengasta ástæða valkeisarafæðingar er saga um fyrri keisarafæðingu. Hér á landi, sem og annars staðar í heiminum, hefur tíðni keisarafæðinga aukist verulega á síðustu áratugum og er tíðnin hér á landi 17-19%. Ein leið til að sporna við þessari þróun er að hvetja konur til að reyna við fæðingu eftir fyrri keisarafæðingu og hefur það verið stefnan hérlendis. Líkur á því að kona sem reynir við fæðingu eftir fyrri keisara fæði eðlilega fara á margan hátt eftir ástæðu fyrri keisarafæðingar. Kona sem t.d. hefur farið í keisarafæðingu vegna sitjandi stöðu barns á t.d. mjög góða möguleika á að fæða eðlilega í næstu fæðingu. Talið er að almennar líkur á því að fæða eðlilega eftir fyrri keisarafæðingu séu hins vegar á bilinu 60-80%, sem er auðvitað mjög stórt bil. Hvað varðar örmyndun á legi eftir fyrri keisarafæðingu er aðeins meiri hætta á legrofi hjá konu sem hefur farið í fyrri keisarafæðingu, en hún er samt sem áður mjög lítil, en fer þó eftir hvar skurðurinn hefur verið gerður á leginu. Vegna þessarar auknu líkinda er hins vegar eftirlit í fæðingu mun meira hjá konum sem hafa farið í fyrri keisarafæðingu. Hvað þig varðar finnst mér að  þú ættir að tala við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og saman gætuð þið farið yfir fyrri fæðingarsögu. Ef þú átt erfiða reynslu af fyrri fæðingu er einnig hægt að leita til „Ljáðu mér eyra” sem er þjónusta ljósmæðra og fæðingarlækna sem Kvennasvið Landspítalans veitir konum sem hafa erfiða fæðingareynslu.

Kærar kveðjur og gangi þér vel, 

Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.