Spurt og svarað

17. desember 2008

Keisari eða eðlileg fæðing?

Hæ, hæ!

Ég er ólétt af mínu öðru barni og komin 20 vikur á leið. Ég átti fyrra barnið í nóvember 2007. Nú sef ég ekki á nóttunni því mig kvíðir svo mikið fyrir fæðingunni og er bara ekki að höndla þetta. Getur maður fengið að fara í keisara eða ráða læknarnir því? Og þarf maður bara hreinlega að eiga nóg af pening til að geta borgað fyrir keisara?


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Það er greinilegt að fæðingarreynslan situr í þér og það er eitthvað sem þarf að vinna með. Í því sambandi langar mig að benda þér á þjónustu sem veitt er á Landspítalanum og kallast Ljáðu mér eyra.

Ljáðu mér eyra býður konum og/eða foreldrunum báðum að koma í viðtöl. Fyrst og fremst er lögð áhersla á að hlusta á foreldra tjá sig um reynslu sína af fyrri fæðingu, væntingar og vonbrigði. Reynt er að fara gegnum fæðingarskýrsluna, ferlið rætt og stundum er hægt að leiðrétta misskilning.

Hafðu samband þangað sem fyrst og fáðu að koma í viðtal. Tímapantanir alla virka daga frá kl. 08:00-16:00 í síma 543 3265, 543 3266.

Í framhaldi af þessu væri mjög gott fyrir þig að ræða við fæðingarlækni og ljósmóður varðandi næstu fæðingu til að hægt sé að gera áætlanir um fæðingarmáta. Hver sem niðurstaðan verður þá mun þér örugglega líða betur að hafa ákveðna áætlun sem farið verður eftir.

Sem betur fer er heilbrigðiskerfið okkar þannig að það er ekki hægt að borga fyrir að fara í keisara, heldur er hvert tilfelli metið á faglegan hátt.

Vona að þér gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.