Ketogan í fæðingu

21.09.2006

Nú langar mig að spyrja út í verkjalyf í fæðingu, las í fyrirspurn hér um Ketogan. Er farið að gefa Ketogan þá í töflu eða sprautu formi og hvenær þá? Snemma eða þegar fer að líða á? Finnst þetta svolítið forvitnilegt, þekki vel verkun Ketogans af eigin reynslu við bakverkjum og finnst þetta athyglisvert ef hægt er ða nota það í fæðingu. Ég á eina fæðingu að baki, hryllilega upplifun og á núna 3 vikur í aðra fæðingu og því spái mikið í verkjastillingar. Fékk í þeirri fyrri allt mögulegt, nálar, bað, bakstra, Petidín/Phenergan sprautu sem ég grenjaði undan þegar hún stakk mig í mjöðmina og ég fékk marblett á stærð við 2 lófa . Sennilega vegna hversu ofurspenntir allir vöðvar voru. Ég þoldi heldur ekki æðalegginn í hendinni. Fátt virkaði þangað til mænurótardeyfingin kom til sögunnar og bjargaði lífi mínu og ég gat hætt að gráta. Enda fæddist krílið í framhöfuðstöðu með ennið upp svo það bankaði upp í lífbeinið í verkjunum og ég gleymi þeim verkjum aldrei. Ég fékk 3° rifu. Því er ég að reyna að takast á við kvíðann en það gengur illa og ég skil ekki að ég skyldi ætla að eiga annað barn. Jú ég fékk svo dásamlegt heilbrigt og fallegt barn í fyrra skiptið að það
freistaði.

Takk fyrir góð svör og fljót :)

Kveðja, H verðandi mamma -37 vikur. 

 


 

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Ketogan er ekki mikið notað við fæðingar enda hafa ekki verið gerðar nægjanlegar rannsóknir á áhrifum þess á hið ófædda barn eða konu í fæðingu, svo ég viti. Ég veit reyndar til þess að Ketogan hafi verið notað í fæðingu eftir ráðleggingar frá svæfingalækni en sú kona gat hvorki fengið mænurótardeyfingu né Petidín af vissum ástæðum. Í það skiptið var lyfið gefið í æð, smá skammtur í einu og það virkaði vel á verkina. Við vitum að verkjalyf af flokki morfíns s.s. Petidín og Ketogan geta valdið öndunarbælingu hjá nýbura og því er ekki æskilegt að nota slík lyf 2‑3 klukkustundum fyrir væntanlega fæðingu, nema brýna nauðsyn beri til.  

Ég vona að þessar upplýsingar komi að gagni og að fæðingin gangi vel hjá þér í þetta sinn.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. september 2006.