Spurt og svarað

12. apríl 2008

Komurit

Takk fyrir frábæran vef, hér er ógrynni upplýsinga að finna.

Mig langaði að spyrja um „komuritið“ sem tekið er af manni þegar komið er upp á fæðingardeild þegar að fæðingu kemur. Ég átti mitt fyrsta barn fyrir þremur árum og man hvað mér fannst óþægilegt að liggja á bekk í hálftíma í ritinu þegar komið var upp á spítala - ég var komin með reglulegar hríðir sem ég hafði tekist vel á við heima (með því að hreyfa mig og ganga um og halla mér svo fram á stuðning í hríðum og nota þrýsting á mjóbakið með hitapoka) en mér fannst ég missa alveg taktinn með því að liggja svona í ritinu og þetta varð allt miklu verra. Ég var komin með 7 í útvíkkun þegar ljósmóðir skoðaði mig eftir ritið. Tók smá tíma að komast svo aftur inn í góðan takt og ná slökun á milli.

Mín spurning er: er þetta algjörlega nauðsynlegt rit ef allt virðist í lagi? Engar aðrar aðferðir til að athuga hvernig barninu líður? Þarf þetta að standa svona lengi? Er eitthvað svona rit tekið í heimafæðingum (og ef ekki, hafa þær nokkuð komið verr út en spítalafæðingarnar?)

Misskildi ég þetta kannski eitthvað og hefði ég getað hreyft mig eitthvað meira í ritinu? ég var svo hlýðin að ég lá bara alveg kyrr og beið.

Að öðru leyti var upplifunin af spítalanum og síðan Hreiðrinu mjög góð, og maður gat haft þetta alveg eins og maður vildi - þetta var það eina sem truflaði mig. Nú er annað barn á leiðinni og mig langaði því að spyrja aðeins út í þetta.

Kveðja, ein með ritfóbíu.


Sæl og blessuð!

Samkvæmt því sem við vitum núna þá er alls ekki nauðsynlegt að taka svokallað komurit hjá heilbrigðum konum í eðlilegri fæðingu. Hins vegar er þetta ansi sterk venja sem virðist vera erfitt að afnema. Það hefur verið í umræðu á LSH í dálítinn tíma að hætta að taka komurit hjá heilbrigðum konum í eðlilegri fæðingu en það er þó ennþá gert. Hér á síðunni er fjallað um gagnsemi mónitora og þar ættir þú að finna svör við þessum spurningum.

Oftast geta konur nú samt hreyft sig þrátt við að vera tengdar við mónitor, þannig að ef það verður mælst til þess að tekið verði komurit hjá þér í næstu fæðingu þá skaltu athuga hvort þú getir ekki staðið og hreyft þig á meðan.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.